Aldís Magnúsdóttir sáttasemjari hjá Ríkissáttasemjara ákvað að fresta fundi í kjaradeilu Flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins í dag. Hún hefur ekki boðað til nýs fundar. Aðspurð um hvort það megi búast við að hún boði til fundar um helgina svara hún.
„Ég þori ekki alveg að segja til um það að svo stöddu en ég mun vera í sambandi við nefndirnar á næstu dögum og taka ákvörðun í samráði við þau.“
Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í fréttum í gær að flugumferðarstjórum hefði verið boðið sömu hækkanir og þegar hafi verið samið um við aðrar stéttir. Arnar Hjálmsson formaður flugumferðastjóra sagði þeir horfi til atvinnuflugmanna í sinni kröfugerð.
Samtök atvinnulífsins kröfðust þess fyrir Félagsdómi að næsta verkfall flugumferðarstjóra sem boðað er til aðfaranótt mánudags, væri dæmt ólögmætt því ekki hefði verið boðað til þess með lögmætum fyrirvara. Félagsdómur úrskurðaði í dag að það hefði verið gert. Einn af fjórum dómurum skilaði sératkvæði þar sem hann taldi að fallast ætti á kröfur SA.
Áhrif á næstum hundrað flugferðir
Verði af næstu vinnustöðvun sem boðað er, frá klukkan fjögur aðfaranótt mánudags til klukkan tíu á mánudagsmorgun, mun það hafa áhrif á fimmtíu flugferðir á Keflavíkurflugvelli, 18 komuflug og 31 brottfararflug. Flugumferðarstjórar hafa einnig boðað til verkfalls aðfaranótt fimmtudags á sama tíma. Verði að því mun það hafa áhrif á alls 47 flugferðir, 17 komuflug og 47 brottfararflug.