Menning

Sú yngsta í sögunni til að hljóta til­nefningu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Embla Bachmann ásamt bókinni sem tilnefnd er til verðlaunanna.
Embla Bachmann ásamt bókinni sem tilnefnd er til verðlaunanna. Vísir/Ívar Fannar

Sautján ára stúlka sem er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna segist aldrei hafa átt von á viðlíka viðtökum við fyrstu bók sinni. Hún er sú yngsta í sögunni sem hlýtur tilnefningu til þessara virtu verðlauna.

Fyrr á árinu gaf Embla Bachmann út bókina Stelpur stranglega bannaðar. Þetta er fyrsta bók Emblu en hún er fædd árið 2006 og er því sautján ára gömul.

Sú yngsta í sögunni

Embla er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir bókina í flokki barna- og ungmennabókmennta. Þar með er hún yngsti rithöfundurinn til þess að fá tilnefningu til verðlaunanna frá upphafi. Embla segist aldrei hafa átt von á því að hljóta tilnefninguna.

„Ég alveg hoppaði af kæti. Þetta kom mér mjög á óvart, bara rosalega þakklát og algjör heiður. Ég var aðallega að gera þetta upp á gamanið. Mér finnst ótrúlega gaman að skrifa og þetta er algjör plús, einhver svona viðurkenning,“ segir Embla. 

Þurfti foreldri með fyrir útgáfusamning

Embla var aðeins ellefu ára gömul þegar hún ákvað að hún vildi verða rithöfundur. Hún byrjaði svo að skrifa þessa bók fyrir tveimur árum, þegar hún var fimmtán ára. Hún sagði þó foreldrum sínum ekki frá því strax.

„Þau vissu það reyndar ekki fyrr en ég var komin með útgáfusamning. Þannig var mál með vexti að ég var bara sextán ára þannig ég þurfti að taka mömmu með því ég var undir lögaldri. Þannig mamma fékk bara að vita af þessu því hún þurfti að koma með að skrifa undir útgáfusamninginn,“ segir Embla. 

Annars hefðu þau aldrei fengið að vita af þessu fyrr en bókin væri komin út?

„Já, og ég hefði verið alveg til í að rétta þeim bara eintak. En því miður gekk það ekki alveg upp,“ segir Embla að lokum og hlær. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


×