Innlent

Forystuærin Flug­freyja í upp­á­haldi hjá Guðna

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra er mikill áhugamaður um íslensku sauðkindina, ekki síst forystuféð.
Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra er mikill áhugamaður um íslensku sauðkindina, ekki síst forystuféð. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Forystuærin Flugfreyja er í miklu uppáhaldi hjá Guðna Ágústssyni, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, sem á hana. Flugfreyja á þrjú lömb, sem bera öll nöfn bresku konungsfjölskyldunnar eða Karl, Camilla og Díana. Fréttamaður hitti Guðna og forystuféð hans í fjárhúsi í Flóanum.

Guðni er með forystuféð sitt á bænum Stóru Reykjum í Flóahreppi þar sem fer vel um það. Guðni er mikill áhugamaður um íslensku sauðkinda og ekki síst forystufé, sem hann segir algjörlega magnað. Hann er með nöfn á fénu sínu eins og góðum fjárbónda sæmir.

„Hér er hún Flugfreyja, hún er mikil forystuær ættuð frá Ytra Álandi og Gunnarsstöðum í Þistilfirði. Hún er svo mögnuð forystukind að hún er eins og bestu víkingaforingjar eða stjórnmálaforingjar eða verkalýðsforingjar. Hún kemur með hjörðina þegar smalað er og fer fyrir henni,“ segir Guðni og heldur áfram.

„Hún bar þremur lömbum, þessum á krýningardegi Karls konungs Bretlands en hann fæddist fyrstur, mórauður með krúnu og heitir Karl. Svo er það svört gimbur með hvíta krúnu og heitir hún Camilla og svo kom hún Díana í restina.“

Flugfreyja með lömbin sín þrjú í fjárhúsinu á Stóru Reykjum í Flóahreppi.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Og þú hefur alltaf gaman af sauðfénu?

„Já, já, gríðarlega gaman og það er gaman að eiga kindur.“

Guðni segir forystuær mjög merkilegar.

„Þær eru náttúrulega eitthvað annað, alvöru forystuær eru eitthvað annað, þær hafa mannsvit og björguðu smölunum hér í gegnum veðrin og hjörðinni og þær sýna þetta sama eðli í dag,“ segir Guðni Ágústsson.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×