Innlent

Rútuslys á Holta­vörðu­heiði

Árni Sæberg skrifar
Fólk klöngrast út úr rútunni.
Fólk klöngrast út úr rútunni. Vignir Heiðarsson

Hópslysaáætlun viðbragðsaðila hefur verið virkjuð vegna rútuslyss á Holtavörðuheiði. Af myndum af vettvangi að dæma hefur rútan oltið út af veginum. Ekkert liggur fyrir að svo stöddu um líðan farþega rútunnar.

Þetta staðfestir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við Vísi. Hann segir engan vera kominn á vettvang og því búi hann ekki yfir frekari upplýsingum en að rútuslys hafi orðið á heiðinni.

Hann hafi ekki fengið upplýsingar um að önnur farartæki tengist slysinu.

Rútan er nokkuð stór.Vignir Heiðarsson

Þyrlan eldsnögg á staðinn

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við Vísi að áhöfn þyrlu gæslunnar hafi verið á æfingu við Bifröst þegar kall barst frá Lögreglunni á Norðurlandi vestra vegna slyssins.

Þyrlunni hafi verið flogið beint norður og áhöfnin sé nú á vettvangi að skoða aðstæður. Fyrstu upplýsingar sem Ásgeir býr yfir bendi til þess að 29 hafi verið um borð í rútunni.

Ásgeir segir í síðara samtali við Vísi upp úr 15:30 að þyrlan sé farin af vettvangi og ekki hafi verið talin þörf á því að flytja neinn með henni á sjúkrahús.

Hált og hvasst á heiðinni

Að sögn Vignis Heiðarssonar, vegfaranda sem kom að slysinu, var töluverð hálka á Holtavörðuheiði og bálhvasst. Hann hafi sjálfur haft áhyggjur af eigin bíl þar sem hann var með vagn í eftirdragi.

Hann segir að um erlenda ferðamenn hafi verið að ræða og svo hafi virst að enginn væri alvarlega slasaður. Þá hafi viðbragðsaðilar verið mættir á vettvang, minnst einn lögreglubíll og einn sjúkrabíll.

Fréttin hefur verið og verður uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×