„Við fögnuðum í góðra vina hópi á Shake & Pizza, og gætum ekki verið ánægðari.“ Sjálf kemur Bergrún Íris að útgáfu fjögurra bóka þetta árið. „Já, ég er dálítið ofvirk,“ segir Bergrún og hlær.
„Þetta er hins vegar fyrsta bók Þorvaldar og það var ótrúlega gaman að búa til bók með einhverjum sem hefur ekki gert það áður. Ég fæ að upplifa spennuna í kringum útgáfuferlið alveg upp á nýtt, og þessa einstöku gleðina sem blossar upp þegar maður fær brakandi nýtt eintak í hendurnar, beint úr prentsmiðjunni.“
Flestir þekkja hausverkinn að para saman sokka
Bók Þorvaldar Davíðs og Bergrúnar Írisar ber heitið Sokkalabbarnir og fjallar um ævintýraveröld fyllta litríkum sokkum. „Við Þorvaldur erum bæði foreldrar og þekkjum vel hausverkinn sem fylgir því að reyna að para saman sokka. Svo vorum við að hlæja að þessu og velta fyrir okkur hvort allir þurfi endilega að vera hluti af pari, hvort það sé svo slæmt að vera einstakur.
Í Sokkalöbbunum kynnumst við Bjarti, sem ferðast úr þvottavélinni yfir í nýja veröld, þar sem hann upplifir það í fyrsta sinn að vera með augu, munn og tilfinningar.“
Fyrst og fremst skemmtilestur
Þorvaldi Davíð og Bergrúnu Írisi þykir báðum mikilvægt að hlustað sé á raddir barna og þau fái tækifæri til að upplifa tilfinningar sínar án þess að vera sagt að harka af sér eða jafna sig. „Börnum er gjarnan send þau skilaboð að tilfinningar séu ýmist góðar eða slæmar, æskilegar eða óæskilegar.
Í bókinni læra Sokkalabbarnir inn á tilfinningar sínar, í gegnum samskipti og hversdagslega árekstra í Sokkalabbaskólanum. Bókin er fyrst og fremst skemmtilestur en ef hún hjálpar einhverjum börnum að skilja tilfinningar sínar betur þá er það stórkostlegt.“
Bergrún Íris segir samstarfið hafa gengið vel og von sé á fleiri bókum um Sokkalabbana. „Já, en ekki bara fleiri bókum, því Þorvaldur kemur inn með víðamikla reynslu úr sjónvarpi og leikhúsi, og því borðleggjandi að Sokkalabbarnir skemmti börnum einn daginn á skjám allra landsmanna.“
Hér fyrir neðan má sjá myndir frá útgáfuboðinu.













