Skjálftavirkni hélt áfram á Reykjanesi í nótt á svipuðu róli og daginn áður. Stærsti skjálftinn í nótt var 3,1 að stærð. Í nótt samþykkti Alþingi frumvarp um vernd innviða á Reykjanesskaga sem hefur nú þegar tekið gildi. Ríkinu er nú heimilt að ráðast í gerð varnargarða í kringum orkuverið í Svartsengi auk þess að vernda aðra mikilvæga innviði.
Fyrirtæki og þeir íbúar í Grindavík sem komust ekki í bæinn í gær fá tækifæri í dag til að bjarga nauðsynjum og verðmætum. Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarna, segir að miðað við nýjasta hættumatið sé ljóst að gera þurfi auknar öryggiskröfur til þeirra sem fara inn í bæinn í dag frá því í gær. Grindavík hafi verið skipt í þrjú svæði eftir hættu og hættulegasta svæðið sé sigdalurinn svokallaði.
„Það svæði heldur áfram að síga og þar eru sífellt að myndast nýjar sprungur á yfirborðinu. Við skilgreinum þetta svæði svolítið eins og skriðjökul sem er mikið sprunginn og jafnvel snjóað aðeins yfir þannig það er verulega hættulegt að vera inni á því svæði. Það er stefnt að því að þeir sem ekki komust heim til sín í gær, á tveimur fyrrnefndu svæðunum fái að fara þangað í dag og síðan er unnið að því að hægt verði að fara á einhvern hluta á hinu svæðinu þá í fygld viðbragðsaðila og þá í sérstöku viðbragði,“ segir Víðir.
Hvert heimili fái um fimm mínútur til að sækja nauðsynjar. Því styttra sem fólk er inni í bænum því minni sé áhættan. „Þetta er engin bein verðmætabjörgun í fjármálaskilningi en þetta er auðvitað verðmætabjörgun meira í tilfinningalegum skilningi sem er að fara fram þarna,“ segir Víðir og bætir við að fyrirtækin sem fái að fara inn séu í meiri verðmætabjörgun. „Þá sérstaklega frystigeymslurnar sem verið er að tæma.“
Víðir segir ómögulegt að segja til um framhaldið næstu daga, óvissan sé mikil á meðan land heldur áfram að síga. „Við það eykst með hverjum deginum hættan þarna og við sjáum það svona á milli daga að það eru að opnast fleiri sprungur og breytingin er sýnilega á milli daga. Það verður erfiðara og erfiðara að minnsta kosti að fara um svæðið.“
Líkur á gosi séu óbreyttar og segir Víðir áskoranirnar fram undan vera gríðarlegar. Komi til neyðarrýmingar í bænum sé sá tímarammi skammur og viðbúnaðurinn sé í takt við það.