Lífið

Marg­oft verið ná­lægt því að keyra sig í þrot

Íris Hauksdóttir skrifar
Katrín Amni flutti nýverið til Ítalíu ásamt dætrunum Antoníu, 10 ára og Karítas 14 ára.
Katrín Amni flutti nýverið til Ítalíu ásamt dætrunum Antoníu, 10 ára og Karítas 14 ára. aðsend

Katrín Amni Friðriksdóttir henti lífi sínu upp í loft í lok sumars þegar hún sagði skilið við íslenska streituvalda og flutti með dætur sínar tvær til Ítalíu. 

Katrín segir flutningana suður um haf hafa átt sér langan aðdraganda. Endanleg ákvörðun var tekin þegar mæðgurnar fundu draumabæinn. 

„Lucca er hundrað þúsund manna bær í Toscana héraði en við höfðum skoðað nokkra aðra staði. Flórens hefði verið áræðanlegasti kosturinn vinnulega séð en við fundum okkur ekki þar,“ segir Katrín í samtali við blaðakonu. 

Á meðan viðtalinu stendur lýsir Katrín útsýninu sem blasir við henni í gegnum eldhúsgluggann þar sem grænt gras og sólskin skarta sínu fegursta. Hinum megin á línunni er haustlægðin í hámarki og auðvelt að skilja ákvarðanatökuna. 

Systurnar blómstra í bænum Lucca.aðsend
„Þegar við komum í þennan bæ var ekki aftur snúið. Þetta var rétti staðurinn. Næsta skref var að finna húsnæði og skrá stelpurnar í skóla. 

Heimurinn er mitt heimilisfang

Barnsfaðir minn stóð þétt við bakið á okkur og að mínu mati eru dætur okkar svo miklir yfirburða einstaklingar að ég treysti þeim vel í þetta verkefni. Ég hef oft áður steypt þeim í allskonar krefjandi verkefni. Ég sé til þess að þær séu alltaf öruggar og mér það mikið í mun að þær séu aldrei hræddar við stóra heiminn. 

Katrín segir mikilvægt að sýna stelpunum sínum stóra heiminn.aðsend
Eflaust er það partur af því að vera sjálf hálf líbönsk en mér finnst heimurinn vera mitt heimilisfang. Við mæðgur ákváðum þennan flutning út í sameiningu og ræddum það í þaula hvað við myndum segja við hvor aðra ef einhverjar tilfinningar kæmu upp. 

Íslensk börn eru alin upp í svo miklum bómul og mér fannst í raun synd að dætur mínar myndu eyða ungdómsárum sínum á Klambratúni þegar þær gætu verið að upplifa allan heiminn. Það er ekkert betra en að stækka huga og heim barnanna sinna.“

Tækifæri til að kynnast sér upp á nýtt

Spurð hvernig hafi gengið að koma sér fyrir á nýjum og framandi stað segist Katrín hafa alltaf verið með plan. 

Katrín ásamt yngri dóttur sinni, Antoníu.aðsend
„Ég hef flakkað um heiminn frá því ég var ung og búið til skamms tíma á nokkrum stöðum. Þetta nýja ævintýri er bara raunhæft framhald af ævintýramennskunni í mér.

Ég hef í raun verið að undirbúa dætur mínar í skrefum í nokkur ár. Ferðast mikið með þær, skráð á tungumálanámskeið og í sumarnámskeið erlendis. Vissulega var þetta ekki auðvelt en alls ekki óyfirstíganlegt. Verkefnin verða alltaf flóknari þegar það eru börn í spilinu. 

Mæðgurnar ferðuðst víða um Ítalíu áður en rútínulífið hófst. aðsend
Ég vildi að þetta yrði mjúk lending fyrir þær svo við byrjuðum á góðu fríi þar sem við ferðuðumst um strendur Ítalíu áður en dagskráin hófst. Eftir það tók við að búa til nýja rútínu. Ég er nefnilega lúmskur þjóðverji í mér, verð að hafa allt samkvæmt plani. Þess á milli að mæti ég í jóga tíma og treysti á ferlið. 

Það að taka sjálfsstýringuna úr gír og búa til nýjar venjur getur samt alveg tekið á. En það getur líka verið gaman að leita að nýja rétta smjörinu í búðinni. Það getur tekið nokkur skipti en það lætur mér líða lifandi. Þannig fær maður tækifæri til að kynnast sér upp á nýtt.“

Mikill kostur að vera á meginlandinu

Katrín er framkvæmdastjóri og annar eigandi fyrirtækisins Kavita ehf, sem á meðal annars vörumerkin ICEHERBS og Protis, -íslensk fæðubótaefni framleidd hér á landi. Fyrirtækið flytur einnig inn vörumerkin Good Routine og Dr. Hauschka. Hún segir við flutningana hafi hún hýft fyrirtækið upp á næsta stig. 

Katrín segir mikinn kost að dvelja á meginlandinu vinnu sinnar vegna. aðsend

„Við erum mjög ört vaxandi og erum við í miklum alþjóðlegum viðskiptum, þannig að vera á meginlandinu er mikill kostur fyrir mig. Hér næ ég að sinna dýpri vinnu en heima á Íslandi. 

Fyrirtækið er tíu manna teymi og maður er alltaf með milljón bolta á lofti. Þá er hætta á að fókusa ekki á verkefnin sem eru mikilvæg til að vaxa. 

Verandi hér úti er ég ekkert að pæla hvort það sé nóg af mjólk í kaffið  í ísskápnum á vinnustaðnum heldur næ að sinna stóru sýninni. Heima er svo sérvalin manneskja í hverri stöðu. 

Margoft verið nálægt því að keyra sig í þrot

Veðurfarið og smæðin á Íslandi hentar mér hins vegar illa og hraðinn er svakalegur. Þrátt fyrir að vera meðvitaður er óhjákvæmilegt að taka ekki þátt í honum. Ég næ ekki að finna ró til langs tíma heima og hef margoft verið nálægt því að keyra mig í þrot. 

Mægðurnar hafa aðlagast ítalska lífstílnum vel.aðsend
Að vera dugleg og ör manneskja og búa á sama tíma á Íslandi er ekki hollt fyrir mig. Ég er líka oft svo mikil ekkert mál týpa og fer á fulla ferð að leysa öll mál en stundum þarf maður ekki að leysa allt einn. 

Sem betur fer hef ég verið í jóga í tuttugu ár og ég veit að ég þarf á því að halda í þessu brjálaða lífi. Eins tek ég alltaf göngutúr á morgnana áður en vinnan tekur við. 

Katrín segir mikilvægt að halda í streitulausan lífstíl og nýtur lífsins með stelpunum sínum í sólinni. 

Á Íslandi er stutt í allt og auðvitað vill maður sinna vinum sínum en hér er ég markvisst að forðast fólk því ég vil vanda það vel hvar ég eyði orkunni minni. Maður þarf ekki að mæta allstaðar og ég hef öðlast öryggi í því sem er geðveikt frelsandi. Sólin hér gefur mér sömuleiðis svo mikið. Það að vakna við fuglasöng og sólargeisla er tilfinning sem ég get ekki lýst en mæli heilshugar með.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×