Þetta er í fyrsta skipti sem Emma tjáir sig um veikindi hans opinberlega. Fjölskylda hans greindi frá því í febrúar fyrr á árinu að hann væri með framheilabilun. Áður tilkynnti leikarinn í mars í fyrra að hann væri hættur að leika þar sem hann væri með málstol.
„Ég er að kynnast því á eigin skinni hvað heilabilun er erfið. Hún er erfið fyrir manneskjuna sem greinist með hana, en hún er líka erfið fyrir fjölskylduna, þetta er fjölskyldusjúkdómur,“ segir Emma sem ræddi veikindi eiginmannsins í sjónvarpsþættinum Today á NBC sjónvarpsstöðinni.
Emma og Bruce giftu sig árið 2009. Emma segir að fjölskyldan reyni að vera opinská með sjúkdóminn, bæði innan heimilisins og utan þess. Þau eiga saman tvær ungar dætur og þá átti Bruce fyrir þrjár uppkomnar dætur með Demi Moore, leikkonu.
„Það var okkur mjög mikilvægt að ræða þetta við dætur okkar, af því að ég vil ekki að það fylgi þessu nein skömm,“ segir Emma. Hún segir eiginmann sinn hamingjusaman þrátt fyrir allt.
„Hann er gjöf sem heldur áfram að gefa. Ástríkur. Þolinmóður. Sterkur. Það er svo mikið sem hann kennir mér og allri fjölskyldunni. Mér finnst ekki þægilegt að vera hér, þetta er ekki minn þægindahringur. Þetta er krafturinn sem ég hef frá Bruce.“