Innlent

„Þetta var eins og sprenging“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ottó segist ekki hafa séð fólksbílinn þegar hann skall skyndilega á honum.
Ottó segist ekki hafa séð fólksbílinn þegar hann skall skyndilega á honum. Vísir/Vilhelm

Sendi­bíl­stjóri sem fékk fólks­bíl aftan á sig á miklum hraða við Stekkjar­bakka í Breið­holti um helgina segir það hafa verið líkt og sprengingu að fá bílinn aftan á sig. Hann segist þakka guði fyrir að bíllinn hafi lent á sínum sendi­bíl frekar en öðru ökutæki, vegna þess hve illa það hefði getað farið.

Slysið varð síðast­liðinn sunnu­dags­morgun. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu má lík­lega rekja slysið til veikinda öku­manns í fólks­bílnum. Meiðsli öku­mannsins eru sögð minni­háttar.

„Ég hef aldrei upp­lifað annað eins högg. Bíllinn kastaðist upp í loft að aftan og það þarf engan smá­ræðis kraft til þess að lyfta svona sendi­bíl,“ segir Ottó Albert Bjarnars­son, fertugur sendi­bíl­stjóri í sam­tali við Vísi.

Hann segist verkjaður eftir slysið en telur sig hafa sloppið ó­trú­lega vel. Lyfta sendi­bílsins og kassi eru ónýt eftir slysið. Ottó segir að hugur sinn sé fyrst og fremst hjá öku­manni hins bílsins.

„Maður sá hann aldrei koma. Ég var að keyra þarna og hafði séð hann þarna niður frá rétt við ljósin og þá var hann utan vegar. Ég hélt hann væri bara með bilaðan bíl. Ég keyri á­fram og þá verður bara eins og sprenging og bíllinn, sem er um 3,3 tonn, tekst á loft. Ég keyrði út í kant og þá kom hann lullandi eins og í hæga­gangi fram­hjá, niður í gil og á staurinn.“

iPhone sími Ottós hringdi á neyðarlínuna við skellinn. Nýr eiginleiki í Apple símunum. Vísir/Vilhelm

Ottó segist hafa spurt sjúkra­liða sem hlúðu að honum hvernig maðurinn hefði það. Hann segir slysið hafa litið afar illa út, hann hafi allt eins átt von á því að maðurinn væri látinn.

„Þau sögðu mér að hann væri á lífi og ég var mjög feginn. Ég hélt hann væri dáinn því þetta var rosa­legasta högg sem ég hef upp­lifað. Bíllinn hans er pott­þétt gjör­ó­nýtur. Svo er lyftan og kassinn á mínum bíl ónýt.“

Feginn að það hafi ekki verið ein­hver annar

Ottó ber sig vel þrátt fyrir að vera verkjaður eftir slysið. Hann segist fyrst og fremst feginn því að fólksbílnum hafi verið ekið á hann því hann hafi verið á bíl sem gat betur tekið við því gríðar­lega höggi sem fylgdi á­rekstrinum.

„Ég er rosa­lega feginn svona eftir á að hyggja. Það er kannski bara á­gætt að ég hafi verið þarna en ekki ein­hver annar,“ segir Ottó.

Ottó segir ljóst að kassi bílsins sé ónýtur og lyfta hans sömuleiðis eftir slysið.Vísir/Vilhelm

Frekar en ein­hver á smá­bíl?

„Já. Það hefði verið hræði­legt. Alveg hræði­legt. Ég hef hugsað mikið um þetta. Ég var löngu hættur að vinna um helgar en það var árs­há­tíð á Sendi­bíla­stöðinni, vöntun á bílum. Þessi kona hringdi á föstu­dag og bað um þetta og ég kunni ekki við það að segja nei og vildi redda þessu. Ef ég hefði lagt af stað að­eins fyrr eða að­eins seinna þá hefði ég ekki verið þarna. Maður er akkúrat þarna á réttum tíma. Alveg magnaður and­skoti.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.