Lífið

Musk uppljóstar óvenjulegu nafni áður ótilgreinds sonar

Jón Þór Stefánsson skrifar
Elon Musk á í heildina ellefu börn, en ekki var vitað af tilvist Tau Techno Mechanicus fyrr en í gær.
Elon Musk á í heildina ellefu börn, en ekki var vitað af tilvist Tau Techno Mechanicus fyrr en í gær. EPA

Elon Musk, auðugasti maður heims, hefur greint frá nafni þriðja barns síns og tónlistarkonunnar Grimes. Hann heitir Tau Techno Mechanicus.

Ekki hafði verið greint opinberlega frá tilvist þessa barns fyrr en í gær þegar The New York Times fjallaði um ævisögu Musk sem er væntanleg.

Ekki er vitað hversu gamall Tau er, en fyrir eiga Musk og Grimes tvö börn, en það er þriggja ára sonurinn X Æ A-12, og eins árs dóttirin Exa Dark Sideræl.

Elon Musk á í heildina ellefu börn, en Grimes einungis þau þrjú sem hún á með milljarðamæringnum.

Fregnirnar af þessum nýja syni koma nokkrum dögum eftir að Grimes sakaði Musk um að leyfa sér ekki að hitta son sinn. Það gerði hún á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, sem er í eigu Musk.

Færslunni hefur nú verið eytt, en ekki er vitað hvort hún átti við um Tau Techno Mechanicus eða X Æ A-12.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×