Innlent

Höfðu af­skipti af ung­mennum að veiða dúfur

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og í nótt.
Lögregla hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út eftir að tilkynnt hafði verið um ungmenni að reyna að lokka til sín dúfur og handsama þær í miðborg Reykjavíkur.

Frá þessu segir í tilkynningu frá lögreglu þar sem segir frá verkefnum gærkvöldsins og næturinnar. Þar segir að lögregla hafi farið á vettvang og rætt við ungmennin. Þau hafi reynst vera með gildru meðferðis og voru þá þegar búin að veiða tvær dúfur og setja þær ofan í bakpoka.

Í tilkynningunni segir einni frá því að lögregla hafi sinnt útköllum vegna manna í annarlegu ástandi, meðal annars öldauðs manns í anddyri hótels í miðborginni. Sömuleiðis var tilkynnt um tónlistarhávaða í miðborginni.

Á svæði lögreglustöðvar sem sinnir verkefnum í Hafnarfirði og Garðabæ segir að þar hafi verið tilkynnt um innbrot í heimahúsi þar sem verðmætum hafi verið stolið og er málið í rannsókn. Þá hafi ökumaður verið handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis. Sá hafi reynt að komast undan lögreglu en án árangurs og var hann handtekinn og fluttur á lögreglustöð.

Á svæði lögreglu sem sinnir verkefnum í Kópavogi og í Breiðholti var tilkynnt um mann sem hafði dottið af rafmagnshlaupahjóli. Lögregla hafi verið á vettvang ásamt sjúkraliði, en maðurinn er grunaður um að hafa verið ölvaður á rafmagnshlaupahjólinu. Hann var fluttur á bráðamóttöku til frekari aðhlynningar.

Á svæði lögreglustöðvar 4, sem nær yfir Grafarvog, Árbæ og Mosfellsbæ, var tilkynnt um tvær líkamsárásir, tvö umferðarslys og eitt hestaslys.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×