Innlent

Hraun­rennslið nú al­farið neðan­jarðar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Haldi gosið áfram má búast við því að þessi þróun verði svipuð.
Haldi gosið áfram má búast við því að þessi þróun verði svipuð. Vísir/Arnar

Hraun­rennsli í eld­gosinu virðist nú vera al­farið neðan­jarðar og gíg­skálinn virkar einungis sem bull­sjóðandi pottur án yfir­borðs­rennslis. Í kvöld má greina nokkra staði í hraun­breiðunni þaðan sem hraun vellur upp úr hraun­rásum neðan­jarðar.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá Eld­fjalla-og náttúru­vá­r­hópi Suður­lands. Þar kemur fram vestan við gíginn sé nú myndar­leg hraun­tjörn sem nærist af hægu inn­rennsli í gegnum göng sem tengjast beint í gíg­skálina.

Sunnan við gíginn er tekið að myndast til­tölu­lega slétt hellu­hraun ofan á úfnara hrauni. Undan storknuðu hellu­hrauninu er hraun­bráð að brjótast fram á fjöl­mörgum stöðum og er það til marks um að net hraun­rása neðan­jarðar sé að myndast og þróast. Haldist gosið á­fram stöðugt má búast við að þessi þróun haldi á­fram og að hraun­rásir neðan­jarðar muni veita hrauninu langar leiðir frá gígnum.

Fram­vinda hellu­hrauns er al­mennt mun hægari en úfnara apal­hrauns. Þetta sást vel í gosinu í Geldinga­dölum 2021 þar sem hraun­jaðarinn skreið oftar en ekki fram yfir sem úfið karga­hraun, en á seinni stigum var hið úfna hraun hulið sléttu hellu­hrauni.

Á morgun eru tvær vikur frá því að gosið hófst. Gos­ó­rói síðast­liðna viku hefur verið merki­lega stöðugur, fyrir utan stök og tíma­bundin frá­vik þegar breytingar hafa orðið á sjálfum gígnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×