Menning

Ís­lands­vinur og „einn merkasti skáld­sagna­höfundur okkar tíma“ látinn

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Rithöfundurinn varð 94 ára.
Rithöfundurinn varð 94 ára. AP

Tékkneski rithöfundurinn Milan Kundera er látinn, 94 ára að aldri. Að sögn Friðriks Rafnssonar, þýðanda verka hans, var hann að mati margra einn merkasti skáldsagnahöfundur okkar tíma. 

Talskona Milan Kundera bókasafnsins staðfesti andlát rithöfundarins. Í frétt The Guardian er farið yfir langa og viðburðaríka ævi Kundera. Þar segir meðal annars frá flutningi hans til Frakklands eftir að hafa verið rekinn úr Kommúnistaflokki Tékkóslóvakíu í tvígang fyrir andkommúnískar athafnir. 

Þá segir að hann hafi á sínum fjörutíu árum í París skrifað sínar frægustu skáldsögur, til að mynda Óbærilegur léttleiki tilverunnar, og síðustu bók hans, Hátíð merkingarleysunnar.

Dapurleg tíðindi

 Friðrik Rafnsson, þýðandi, hefur þýtt öll verk Kundera á íslensku, skáldsögur, smásögur, leikrit og ritgerðir. Í samtali við Vísi segir hann Kundera hafa verið einn merkasti skáldsagnahöfundur okkar tíma. „Hann er einn af þessum stóru höfundum sem hefur kvatt okkur núna,“ segir Friðrik. 

„Hann var bæði hlédrægur og lítið til þess að trana sér fram, og vildi helst að fólk læsi bara bækurnar hans,“ segir Friðrik. „Þannig að ef fólk vill minnast hans á einhvern hátt þá ráðlegg ég fólki að lesa eða endurlesa verkin hans og njóta þeirra.“

Friðrik vekur að auki athygli á hve mikill Íslandsvinur höfundurinn var. Hann hafi til að mynda skrifað ritdóm um Svaninn, bók Guðbergs Bergssonar. „Hann greiddi götur íslenskra listamanna úti í heimi líka.“

„Hann var auðvitað 94 ára og svo sem við því að búast að færi að styttast, en það er sama. Þetta eru dapurleg tíðindi,“ segir Friðrik. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×