Innlent

Akur­eyri og Egils­staðir væn­legri land­náms­kostir moskító­flugna

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Enn sem komið er moskító ekki mætt í Laugardalinn heldur eru þar allskonar aðrar flugur líkt og forarmýið sem hér er á mynd.
Enn sem komið er moskító ekki mætt í Laugardalinn heldur eru þar allskonar aðrar flugur líkt og forarmýið sem hér er á mynd.

„Moskító­fluga“ sem fannst í Laugar­dal í Reykja­vík reyndist ekki vera moskító­fluga heldur forar­mý. Skor­dýra­fræðingur segir tegundina al­genga um allt land. Moskító þurfi menn til að komast til landsins og þar eru Akur­eyri og Egils­staðir væn­legri land­náms­kostir en Kefla­vík.

„Ekki er um moskító að ræða heldur tegund af forar­mý­sætt (Ani­sopodida­e) sem ber heitið forar­mý (Syl­vicola fenestra­lis). Þetta er al­gengt um allt land og við verðum því að bíða að­eins lengur eftir moskító­flugum!“ skrifar Matthías Svavar Al­freðs­son, skor­dýra­fræðingur hjá Náttúru­fræði­stofnun Ís­lands í svari við fyrir­spurn Vísis.

Íbúi í Reykja­vík bað Matthías um álit á því hvort um væri að ræða moskító­flugu. Í­búinn var þess full­viss um að hér væri á ferðinni moskító­flugur en líkt og flestir vita hefur flugna­tegundin aldrei lagt land undir fót hér á landi en er til staðar í ná­granna­landinu Græn­landi.

Gísli Már Gísla­son, prófessor emeritus í vatna­líf­fræði, sagði í Bítinu á Bylgjunni í fyrra að það væri einungis tíma­spurs­mál hve­nær tegundin myndi berast til Ís­lands.

Ýmsar kenningar eru uppi um það hvers vegna moskító­flugan hefur enn ekki borist hingað til lands og er ein sú að al­þjóða­flug­völlurinn sé á Reykja­nesi, á eina stóra land­svæði Ís­lands þar sem lítið sem ekkert sé um vot­lendi, sem er kjör­lendi moskító­flugunnar.

Muni lík­lega ekki berast hingað með vindum

Matthías segir kjör­lendi moskító­flugunnar vera vot­lendi í mjög víðum skilningi. Allar tegundir moskító­flugna þurfi vatn svo eggin klekist út, þar þroskast lirfur og púpa sig en þær þurfi ekki endi­lega mikið vatn.

„Upp­eldis­stöðvar geta allt eins verið ílát eða dekk sem safna rigningar­vatni. Sumar tegundir verpa eggjum í hola trjá­boli sem safna vatni og sumar kjósa ísalt vatn svo dæmi séu tekin. Hvar þær verpa eggjum sínum fer eftir tegundum,“ skrifar Matthías.

Matthías Svavar að störfum fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands.Erling Ólafsson

Hann segir moskító­flugur ekki fljúga hátt upp frá jörðu og því sé ó­lík­legt að þær geti borist til landsins með vindum. Væri það mögu­leiki væru þær lík­lega þegar búnar að nema land. Þær þurfi því að stóla á manninn til að komast hingað.

„Þær geta borist með flug­vélum til landsins. Það hjálpar vissu­lega til að al­þjóða­flug­völlurinn okkar er á stað þar sem að­stæður eru ekki góðar fyrir moskó­tó­flugur. Spurning hvort að milli­landa­flug til Akur­eyrar og Egils­staða sé ekki væn­legri kostur. Þær gætu líka borist til landsins með skipum til dæmis í gámum eða fylgt farar­tækjum ferða­manna.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×