Innlent

Segir að sveitar­fé­lögin ættu að sjá að sér líkt og for­sætis­ráð­herra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ingibjörg Sólrún segir atvinnurekendur vísa í prinsipp og nota formrök til að réttlæta ósveigjanleika sinn.
Ingibjörg Sólrún segir atvinnurekendur vísa í prinsipp og nota formrök til að réttlæta ósveigjanleika sinn. Vísir/Vilhelm

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og borgarstjóri, segir tímabært að sveitarfélögin skipti um kúrs, hætti að hengja sig í formrök og tryggi að allir fái sömu laun fyrir sömu vinnu.

„Ef það er vilji þá er vegur,“ segir Ingibjörg Sólrún á Facebook um samningaviðræður BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

„BSRB á núna í harðri kjarabaráttu og tekur eiginlega við keflinu þar sem Efling sleppti því. Bæði félögin eru undir forystu kvenna og berjast fyrir því að störf hefðbundinna kvennastétta verði metin að verðleikum. Atvinnurekendur taka fast á móti, vísa í prinsipp í kjaraviðræðum og nota formrök til að réttlæta ósveigjanleika sinn,“ segir Ingibjörg Sólrún.

Hún segir formrök vissulega eiga erindi í umræðun en þau geti þó ekki vikið til hliðar öllum sanngirnis- og réttlætisrökum. Þá vísar hún til fyrirhugaðra launahækkana þing- og ráðamanna.

„Forsætisráðherra greip líka fyrst til formraka þegar umræðan kom upp um launhækkanir æðstu ráðamanna og benti á að um aðferðina hefði verið víðtæk sátt þegar henni var komið á. En fyrirkomulagið var auðvitað ekki klappað í stein og hún hafði vit á að hlusta á sanngirnis- og réttlætisrök og skipta um kúrs.“

Þetta ættu viðsemjendur BSRB að taka til fyrirmyndar.

„Sveitarfélögin verða líka að skipta um kúrs, hætta að hengja sig í formrök og tryggja að allir fái sömu laun fyrir sömu vinnu. Ef það er vilji þá er vegur.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.