Innlent

Hæsta­réttar­lög­maður og sak­sóknari meðal átta í bar­áttu um dómara­starf

Atli Ísleifsson skrifar
Guðrún Sesselja Arnardóttir er meðal umsækjenda. Hún er dóttir Arnar Clausen heitins, tugþrautarkappa og lögfræðings.
Guðrún Sesselja Arnardóttir er meðal umsækjenda. Hún er dóttir Arnar Clausen heitins, tugþrautarkappa og lögfræðings. Vísir/Vilhelm

Lögmenn, lögfræðingar, aðstoðarmenn dómara og saksóknar bítast um tvö laus embætti héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjavíkur við Lækjartorg. Reynsluboltar og þekktir saksóknarar eru á meðal umsækjenda. Greint er frá umsækjendum á vef dómsmálaráðuneytisins.

Embættin voru auglýst í Lögbirtingablaðinu þann 12. maí. Annars vegar er um að ræða skipun í embætti dómara sem mun hafa fyrstu starfsstöð við Héraðsdóm Reykjavíkur frá og með 1. september næstkomandi. Hins vegar er um að ræða setningu í embætti dómara með fyrstu starfsstöð við Héraðsdóm Reykjavíkur meðan á leyfi skipaðs héraðsdómara stendur. 

Sett verður í embættið frá og með 1. september 2023 og miðað er við að setningin vari til 28. febrúar 2029.

Meðal umsækjenda er Guðrún Sesselja Arnardóttir hæstaréttarlögmaður sem hefur gætt hagsmuna íslenska ríkisins í áberandi málum undanfarin ár auk þess að vera verjandi í áberandi sakamálum. Þá er Finnur Vilhjálmsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara og fyrrverandi sjónvarpsmaður, á meðal umsækjenda.

Finnur Vilhjálmsson hefur verið saksóknari í stórum efnahagsbrotamálum undanfarin ár.Vísir/Vilhelm

Umsækjendur um embættin eru eftirtaldir:

  • Finnur Vilhjálmsson saksóknari,
  • Guðrún Sesselja Arnardóttir lögmaður,
  • Hákon Þorsteinsson lögfræðingur,
  • Logi Kjartansson lögfræðingur,
  • Oddur Þorri Viðarsson lögfræðingur,
  • Sólveig Ingadóttir aðstoðarmaður héraðsdómara,
  • Stefanía G. Sæmundsdóttir saksóknari,
  • Sigurður Jónsson lögmaður.

Umsóknir verða afhentar dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara til meðferðar hið fyrsta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×