Innlent

Ferjan í slipp og ekkert bólar á ferða­mönnum á meðan

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Svafar segir það mikið högg fyrir ferðaþjónustuna í Grímsey að Sæfari skuli hafa ílengst í slipp.
Svafar segir það mikið högg fyrir ferðaþjónustuna í Grímsey að Sæfari skuli hafa ílengst í slipp. Aðsend

Ferðaþjónusta í Grímsey er í lamasessi þar sem Sæfari, ferja Grímseyinga, er í slipp. Ferjan átti að byrja að sigla aftur í maí en því hefur tvívegis verið frestað. Veitingamaður í eyjunni hefur áhyggjur af stöðunni. 

Sæfari hefur verið í slipp síðan í mars, og átti að vera tilbúinn í lok maí. Eitthvað virðist þó standa á ferjunni, sem er ekki komin úr slipp og verður þar áfram í rúma viku. Það þykir ferðaþjónustufólki í eyjunni allt annað en ákjósanlegt.

„Það eru ekki neinir túristar farnir að koma og fólk er búið að afbóka og gistiheimili eru búin að þurfa að endurgreiða,“ segir Svafar Gylfason, sem rekur veitingahús og gistiheimili í eyjunni.

Ferðaþjónustuvertíðin í Grímsey sé ekki löng, en hún væri þó hafin á þessum tíma, það er að segja í eðlilegu árferði.

„Það hefur verið mjög fínt að gera hjá okkur hérna síðustu ár í maí. Ef þetta teygir sig eitthvað inn í júní, þá er þetta bara stórtjón fyrir okkur.“

Annar tími hefði hentað betur

Samskip sér um rekstur ferjunnar en hún er í eigu Vegagerðarinnar. Svafar telur að betur hefði farið á því að ráðast í framkvæmdir á öðrum tíma en í upphafi ferðamannavertíðar.

„Maður bara skilur ekki að það hafi ekki verið farið í þessar framkvæmdir á öðrum tíma, þegar það er ekki ferðamaður. Oft á tíðum hérna í desember og janúar er lítið að flytja.“

Ef framkvæmdirnar koma til með að dragast meira en þær hafa þegar gert sé það grafalvarlegt mál.

„Það er bara rosalega slæmt. Það er náttúrulega mikið af þessum ferðamönnum sem eru að bóka langt fram í tímann. Það er hætt við því að þeir séu allir hættir við að koma sem ætluðu til Grímseyjar í sumar. Maður er bara skíthræddur um að það verði miklu minna um ferðamenn út af þessu. Þeir geta ekki ennþá bókað í skipið eða neitt,“ segir Svafar. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.