Innlent

Birtir launa­seðla leik­skóla­leið­bein­enda

Máni Snær Þorláksson skrifar
Formaður BSRB birtir í dag launaseðla leikskólaleiðbeinenda sem starfa í Reykjavík og Kópavogi.
Formaður BSRB birtir í dag launaseðla leikskólaleiðbeinenda sem starfa í Reykjavík og Kópavogi. Vísir/Vilhelm/Facebook

Töluverður munur er á launum leikskólaleiðbeinenda sem vinna í Reykjavík og í Kópavogi. Samkvæmt launaseðlum sem formaður BSRB birtir í dag fær leiðbeinandi í Kópavogi um 45 þúsund krónum minna í heildarlaun fyrir skatt.

„Ef þið skoðið þessa launaseðla fyrir laun í janúar 2023 sjáið þið mat samfélagsins á virði starfa leiðbeinenda á leikskólum,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í færslu sem hún birtir á Facebook-síðu sinni í dag. 

Um er að ræða launaseðla hjá tveimur leikskólaleiðbeinendum, annar starfar í Reykjavík en hinn í Kópavogi. Báðir eru í fullri vinnu. Sonja segir launin vera ögn skárri í Reykjavík heldur en í Kópavogi eða öðrum stéttarfélögum.

Launaseðlarnir sem Sonja birtir í dag. Eins og sjá má fékk leiðbeinandi í Reykjavík 45 þúsund krónum meira útborgað í janúar.Facebook

Leiðbeinandinn í Reykjavík fær 478.380 krónur fyrir skatt á meðan manneskja í sömu stöðu í Kópavogi fær 433.209 krónur. Sonja segir þetta vera sökum þess að Reykjavíkurborg greiðir sérstakar aukagreiðslur vegna þessara starfa. Hin sveitarfélögin geri það ekki og neiti að gera það.

„Þau hafa hafnað sjálfsögðum kröfum okkar fólks um sömu laun fyrir sömu störf á leikskólum um landið allt. Gætuð þið lifað af á þessum launum?“

Muni um minna á þessum launum

BSRB hefur lagt mikla áherslu á að fólk eigi að fá sömu laun fyrir sömu vinnu. Ástæðan fyrir þessum mismuni launa er sú að aðrir samningar gáfu hækkun frá áramótum en starfsfólk BSRB fékk sömu hækkun ekki fyrr en 1. apríl síðastliðinn.

Stéttarfélagið hefur sakað Samband íslenskra sveitarfélaga um að hafa mismunað starfsfólki sínu með tilliti til launa og krafist leiðréttingar vegna þessa. Sambandið hefur þó vísað þeim ásökunum á bug og skorað á BSRB að fara með málið fyrir dómstóla.

Sonja bendir á að BSRB sé ekki einungis að krefjast leiðréttingar á þessu heldur einnig að starfsfólk leikskóla fái aukagreiðslur, óháð því hvort það starfi í Reykjavík eða í öðrum sveitarfélögum. 

„Það munar um minna þegar maður er á þessum launum,“ segir hún í samtali við fréttastofu.„Þessi störf, eins og innan leikskólana, þetta eru með lægstu laununum á vinnumarkaði yfir höfuð. Sem sýnir auðvitað að það er mjög skakkt verðmætamat á þessum störfum.“

Þá segir Sonja samningaviðræðurnar við Samband íslenskra sveitarfélaga ennþá vera í hnút. Enn sé ekki búið að boða til annars fundar með ríkissáttasemjara.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×