Innlent

Meiri­hluti ger­enda og þol­enda heimilis­of­beldis yngri en 36 ára

Kjartan Kjartansson skrifar
Hlutfallslega oftar var tilkynnt um ágreining en heimilisofbeldi á fyrstu þremur mánuðum ársins en undanfarin ár. Myndin er úr safni og er sviðsett.
Hlutfallslega oftar var tilkynnt um ágreining en heimilisofbeldi á fyrstu þremur mánuðum ársins en undanfarin ár. Myndin er úr safni og er sviðsett. Vísir/Getty

Rúmlega helmingur þeirra sem beitti og varð fyrir heimilisofbeldi á fyrsta fjórðungi ársins var yngri en 36 ára samkvæmt tölum lögreglunnar. Afgerandi meirihluti gerenda var karlar og konur yfirleitt þolendur.

Alls bárust 598 tilkynningar um heimilisofbeldi og ágreining á milli skyldra eða tengdra aðila fyrstu þrjá mánuði ársins samkvæmt nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra. Það jafngildir tæplega sjö tilkynningum á hverjum degi.

Óverulegar breytingar voru á milli ára. Tilkynningunum fækkaði um tvö prósent miðað við sama tímabil í fyrra. Tilvikum heimilisofbeldis fækkaði þó um fimm prósent frá meðaltali tímabilsins undanfarin þrjú ár. Á sama tíma fjölgaði tilkynningum um ágreining um tæplega 27 prósent.

Í um 78 prósent tilvika heimilisofbeldis var árásaraðili karl og í tæplega 70 prósent tilvika var árásarþoli kona. Um 40 prósent árásaraðila var á aldrinum 26-35 ára. Þegar horft er til tilvika heimilisofbeldis þegar um er að ræða ofbeldi milli maka eða fyrrum maka eru um 81 prósent árásaraðila karlar og 77 prósent brotaþola konur. Þar af var rúmlega helmingur árásarþola undir 36 ára.

Lögreglan skilgreinir heimilisofbeldi sem brot sem einstaklingur verður fyrir af hendi nákomins, það er að segja þegar árásaraðili og árásarþoli eru skyldir, tengdir eða hafa sögu um tengsl og eru tilvikin ekki bundin við heimili fólks. Grunur getur þá verið um brot á borð við líkamsárásir, hótanir, eignaspjöll og fleira. Þá virkjast verklag ríkislögreglustjóra um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála. 

Útköll lögreglu þar sem ekki er grunur um brot eru skráð sem ágreiningur á milli skyldra og tengdra. Mikilvægt þykir að skrá bæði ágreining og heimilisofbeldi til að fá heildstæða mynd af tilvikum og hvort tilvik leiði til ítrekaðra og alvarlegri atvika.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×