Innlent

Dúfur eru með jafnrétti kynjanna 100% á hreinu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Ragnar hefur náð mjög góðum árangri í sinni dúfnaræktun og unnið til fjölmarga verðlauna í gegnum árin.
Ragnar hefur náð mjög góðum árangri í sinni dúfnaræktun og unnið til fjölmarga verðlauna í gegnum árin. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Dúfur vita nákvæmlega hvað jafnrétti kynjanna þýðir því kerlingin liggur 12 klukkutíma á sólarhring á eggjum og karlinn hina tólf tímana. Þá sjá bæði kynin um að gefa ungunum mjólkina sína fyrstu sólarhringana.

Ragnar Sigurjónsson í Brandshúsum í Flóahreppi er einn öflugasti dúfnabóndi landsins enda þaulreyndur í faginu og finnst fátt skemmtilegra en að sinna fuglunum sínum og fara með þá í keppnir um allt land. Þessa dagana eru ungar að klekjast út úr eggjum eða þá að fuglarnir liggja á þeim og bíða eftir ungunum sínum. Flest pörin eru með tvo ungan .

„Ég er að para saman góðar dúfur til þess að fá betri keppnisfugla fyrir sumarið,” segir Ragnar.

En hvað er það við dúfurnar, sem er svona heillandi?

„Þetta eru svo skemmtilegir fuglar, líflegir og gríðarlega ástfangnir, það má ekki gleyma því. Það sem allt snýst um í lífinu er ástin. Kallinn hann dansar í kringum hana, sópar gólfið og matar hana og klórar henni og kjassar, þetta er bara alveg ótrúlegt. Þetta eru alvöru karlar,” segir Ragnar brosandi.

Það er ekki nóg með að karlarnir séu alvöru karlar því þeir sjá líka um að gefa ungunum sínum dúfnamjólkina, þar að segja, þeir framleiða mjólk alveg eins og kerlingin, magnað en dagsatt.

„Já, það alveg ótrúlegt. Það eru bara tvær fuglategundir, sem ég veit í heiminum, sem gera þetta en það eru Pelíkanar og svo dúfurnar.”

Og dúfurnar eru með jafnréttið 100 prósent á hreinu því pörin skiptast á að liggja á eggjunum allan sólarhringinn, hún í 12 klukkutíma og hann í 12 klukkutíma.

Og Ragnar á sér uppáhalds dúfu, sem hann er að rækta undan en það er karlinn Snöggur, sem var sneggsta dúfan í keppnum síðasta sumar.

Dagsgamall ungi í lófanum hjá Ragnari. Karlinn og kerlingin sjá um að gefa unganum mjólkina sína.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×