Lífið

„Þetta er bara algjör veisla“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Diljá Pétursdóttir var klædd í fatnaði hönnuðum af Hildi Yeoman þegar húnn gekk hinn tvö hundruð metra langa dregil í gær.
Diljá Pétursdóttir var klædd í fatnaði hönnuðum af Hildi Yeoman þegar húnn gekk hinn tvö hundruð metra langa dregil í gær. AP

Eurovision-farinn Diljá Pétursdóttir segir æðislega stemningu í Liverpool og er spennt fyrir komandi viku. 

„Þetta hljómar eins og algjör klisja en mér finnst allir vera í sama liði. Það er enginn neikvæður keppnisandi á milli landa. Það eru allir bara hérna til að kynnast og hvetja hvert annað áfram,“ sagði Diljá í samtali við fréttastofu í morgun.

Diljá gekk svokallaðan túrkís dregil í Eurovision borginni Liverpool í gær og stóð þar raunar á höndum og tók snúning fyrir ljósmyndara. 

„Dregillinn í gær var geggjaður. Ég í rauninni vissi ekkert hvað ég var að koma mér út í en þetta var mjög næs. Við erum öll hérna af sömu ástæðu; af því við elskum Eurovision og um níutíu prósent spurninga voru um lagið mitt. Það er bara mjög gaman að fólk sé að sýna því áhuga.  Það er ótrúlega gaman að vera hérna úti og þetta er bara algjör veisla.“

Fram undan í dag er æfing. „Við erum aðeins að fara yfir atriðið og fínpússa. Svo er er ég að fara syngja í partí í kvöld. Erum að fara flytja Power og nýja lagið mitt Crazy, sem við erum að gefa út á morgun,“ segir Diljá spennt.

Aðspurð um heilsuna og líðan í ljósi þéttrar dagskrá segist hún hafa það mjög gott. „Ég er búin að ná að hvíla mig vel á milli atriða og líður mjög vel. Heilsan er mjög góð. Þetta er alveg vel skipulagt hjá þeim. Hafa mig ekki í fullri dagskrá af því að þá verður maður alveg útkeyrður. Þannig þetta er bara næs,“ segir Diljá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×