Innlent

Hefja for­færingar til undir­búnings dráttar í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Wilson Skaw er nú við akkeri um hálfri sjómílu suðaustur af hafnarmynni Hólmavíkurhafnar.
Wilson Skaw er nú við akkeri um hálfri sjómílu suðaustur af hafnarmynni Hólmavíkurhafnar. Landhelgisgæslan

Fulltrúar eigenda flutningaskipsins Wilson Skaw, Landhelgisgæslunnar, Samgöngustofu og Umhverfisstofnunar samþykktu í gær björgunaráætlun fyrir skipið og er reiknað með að forfæringar með farminn hefjist síðar í dag til undirbúnings dráttar þess til Akureyrarhafnar.

Skipið strandaði í Húnaflóa í síðustu viku og hefur síðustu daga verið í vari fyrir utan Hólmavík.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við Vísi að varðskipið Freyja, sem síðustu daga hafi verið í Steingrímsfirði, muni leggjast að Wilson Skaw síðar í dag.

Hann segir að búist sé við að forfæringar muni standa fram í miðja næstu viku, en þar sé verið að stilla farmi með tilliti til styrkleika skipsins þannig að fyrirhugaður dráttur til Akureyrarhafnar verði sem áhættuminnstur.

Skipið, sem er um 4.000 brúttótonn og 113 metra langt var á leið frá Hvammstanga til Hólmavíkur þegar það strandaði þann 18. apríl. Um borð voru um tvö þúsund tonn af salti og 195 tonn af olíu.

Freyja í Steingrímsfirði.Landhelgisgæslan

Ekki hægt að taka skipið upp að bryggju í Hólmavík

Á vef Strandabyggðar segir að skipið sé við akkeri um hálfri sjómílu suðaustur af hafnarmynni Hólmavíkurhafnar.

Í tilkynningu frá oddvita sveitarfélagsins, Þorgeiri Pálssyni, segir að staðsetning skipsins sé valin með það í huga að skipið hafi ekki nein áhrif á siglingaleiðina til Hólmavíkur. Einfalt sé að draga skipið burt, gerist þess þörf.

„Ekki hefur komið til álita að taka skipið upp að bryggju, enda ristir það dýpra en höfnin leyfir (6,0 m), eins og eflaust margir hafa tekið eftir er skipið djúprist að aftan um 6,8 metra og ekki hægt að breyta því þar sem göt eru komin á tanka skipsins að framan sem venjulega eru fylltir af sjó til þess að rétta af djúpristuna,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Afferma Wilson Skaw og reyna að koma til Akureyrar

Stefnt er á að færa farminn um borð í flutningaskipinu Wilson Skaw og koma því þannig til Hólmavíkur í bráðabirgðaviðgerð. Þetta kom fram á fundi Landhelgisgæslunnar í dag. Hollenska flutningaskipið strandaði þann 18. apríl en er nú í vari í Steingrímsfirði.

Ekki unnt að draga Wil­son Skaw til Akur­eyrar að sinni

Skoðun á vegum eigenda flutningaskipsins Wilson Skaw í gærkvöldi leiddi í ljós að ekki væri unnt að draga skipið til Akureyrar líkt og fyrirhugað var. Mat þeirra er að nauðsynlegt sé að ráðast í bráðabirgðaviðgerð á skipinu áður en hægt verður að draga það til hafnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×