Innlent

Borg­firðingar óttast að girðingar haldi riðu­smiti ekki frá

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Borgfirðingar skora á MAST og matvælaráðherra að axla ábyrgð á lélegum girðingum.
Borgfirðingar skora á MAST og matvælaráðherra að axla ábyrgð á lélegum girðingum. Vilhelm Gunnarsson

Umhverfis- og landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar lýsir yfir miklum áhyggjum af ástandi sauðfjárveikivarnagirðinga í landinu. Skorar hún á matvælaráðherra og Matvælastofnun að axla ábyrgð.

Fulltrúar nefndarinnar sátu opinn upplýsingafund vegna riðusmits í Miðfjarðarhólfi sem haldinn var á Hótel Laugarbakka í Miðfirði þann 18. apríl. Var þar meðal annars tekist á um girðingar.

Í fundargerð segir að Matvælastofnun (MAST) telji að forgangsgirðingum sé vel sinnt í landinu. „Fram kom í máli heimamanna í Miðfirði að þrátt fyrir að um sé að ræða forgangsgirðingu, þá sé viðhaldi ábótavant og girðingar ekki fjárheldar.“

Lýsir nefndin yfir áhyggjum af viðhaldi girðinga á milli varnarhólfa. Einkum á milli Miðfjarðarhólfs annars vegar og Vesturlandshólfs hins vegar. Einnig að sauðfjárveikivarnagirðing sé ónýt á milli Vesturlandshólfs og Snæfellsneshólfs. Leggja þurfi umtalsvert fjármagn í þá girðingu.

„Nefndin skorar á Matvælaráðuneyti og MAST að axla ábyrgð á hlutverki sínu í þessum málum og krefst frekara fjármagns í málaflokkinn sem fyrst í ljósi aðstæðna í Miðfjarðarhólfi,“ segir í bókun nefndarinnar.


Tengdar fréttir

Líkleg riða á öðru stóru býli

Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að riða hafi greinst á öðru býli í Miðfjarðarhólfi. Smitið hefur ekki verið staðfest endanlega en yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun segir unnið út frá því að um riðu sé að ræða.

Samfélagið slegið vegna riðutilfella og bændur uggandi

Riðutilfelli sem hafa nú greinst á tveimur bæjum í Miðfirði eru mikið áfall fyrir samfélagið að sögn sveitarstjóra Húnaþings vestra. Boðað hefur verið til íbúafundar í næstu viku til að fara yfir stöðuna en margir eru uggandi um framhaldið. Stórauka þurfi fé í riðuvarnir og rannsóknir að mati sveitarstjóra.

Skera niður allt fé á öðrum bæ í Mið­firði

Við rannsókn á sýnum úr kindum sem keyptar voru af bænum Bergstöðum í Miðfirði, þar sem riða greindist á dögunum, greindist ein kind á bænum Syðri-Urriðaá með riðu. Allt fé á bænum verður skorið niður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×