Innlent

Prestar Grafar­vogs­kirkju hafna al­farið á­sökunum um „stuld“ á fermingar­börnum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Prestarnir segja að leiðrétta hefði mátt misskilninginn með einu símtali.
Prestarnir segja að leiðrétta hefði mátt misskilninginn með einu símtali.

Arna Ýrr Sigurðardóttir, Guðrún Karls Helgudóttir og Sigurður Grétar Helgason, prestar í Grafarvogssókn, segja ekki rétt að börn þurfi að ganga í Þjóðkirkjuna til að fá að fermast í kirkjunni.

Þetta segja þau í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun en um er að ræða viðbrögð við annarri grein í Morgunblaðinu, þar sem Sigurvin Lárus Jónsson, prestur við Fríkirkjuna í Reykjavík, sakaði Grafarvogskirkju um að „stela“ fermingarbörnum.

Í greininni sagði Sigurvin að ungmenni sem langaði að fermast með félögum sínum í Grafarvogskirkju hefði verið tilneytt til að ganga úr Fríkirkjunni og í Þjóðkirkjuna.

„Ástæðan var sögð fjárhagsleg,“ segir Sigurvin, „að ungmennið mætti ekki njóta þjónustu Grafarvogskirkju án þess að vera skráð í trúfélagið, en engin krafa var gerð um að foreldrarnir skiptu um trúfélag.“

Prestarnir í Grafarvogskirkju segjast hafa komið af fjöllum við lestur greinarinnar, enda hafi Þjóðkirkjuaðild aldrei verið skilyrði þess að fá að fermast í Grafarvogskirkju.

„Á hverju ári fermum við börn sem tilheyra Fríkirkjunni í Reykjavík, Óháða söfnuðinum, kaþólsku kirkjunni og jafnvel fleiri söfnuðum. Auk þess eru alltaf einhver börn utan trúfélaga. Einu tilfellin sem greinarmunur er gerður á þjóðkirkjuaðild er varðandi niðurgreiðslu á fermingarferðalagi í Vatnaskóg,“ segja þau.

Eftirfarandi texta hafi verið að finna í bréfi til foreldra fermingarbarna um Vatnaskóg:

„Verðið fyrir ferðalagið er 8.300 kr. fyrir þau sem tilheyra þjóðkirkjunni. Fyrir þau sem ekki eru meðlimir kostar ferðin 17.300, þar sem þá kemur ekki til niðurgreiðsla frá prófastsdæminu og söfnuðinum. Ef þið eruð í vafa um hvort barnið ykkar er skráð í þjóðkirkjuna er gott að fara á island.is og skoða trúfélagsaðild. Það er ekki skilyrði að vera í þjóðkirkjunni til að sækja fermingarfræðslu og fermast, og það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að fólk velji að vera í öðrum söfnuðum. En stundum er það líka þannig að fólk telur sig vera í þjóðkirkjunni, en er ekki skráð í hana af einhverjum ástæðum. Við bjóðum að sjálfsögðu öll þau velkomin sem vilja vera þjóðkirkjumeðlimir, og einfaldast er að skrá sig á island.is.“

Segjast prestarnir harma ef fólk kaus að skilja textann sem afarkost um Þjóðkirkjuaðild. Þá hefði eitt símtal nægt til að leiðrétta misskilning Fríkirkjuprestsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×