New York Post greinir frá þessu en blaðið er í eigu hins 92 ára Murdoch. Þau trúlofuðust þann 17. mars síðastliðinn og stefna á að ganga í það heilaga í sumar.
Níu mánuðir eru nú liðnir frá því að greint var frá því að hjónaband Murdoch og ofurfyrirsætunnar Jerry Hall væri lokið.
Hin 66 ára Ann Lesley Smith er ekkja kántrítónlistar- og sjónvarpsmannsins Chester Smith sem lést árið 2008, þá 78 ára gamall. Hún starfaði áður sem lögregluprestur í San Francisco.
Murdoch segir í samtali við New York Post að hann hafi verið smeykur við að verða ástfanginn á ný. „En ég vissi að þetta yrði í síðasta skipti. Það ætti að vera það. Ég er hamingjusamur,“ segir Murdoch í samtali við New York Post.
Smith segir að þau hafi hist í september á síðasta ári og að það hafi verið gjöf guðs til þeirra beggja. „Ég hef verið ekkja í fjórtán ár. Líkt og Rupert þá var eiginmaður minn viðskiptamaður,“ segir Smith og vísar þar í að hann hafi átt þátt í að byggja upp fjölda útvarps- og sjónvarpsstöðva. „Ég tala sama tungumál og Rupert. Við erum með sama viðhorf til hlutanna.“
Murdoch hefur verið giftur fjórum sinnum. Hann var giftur Patriciu Booker á árunum 1956 til 1965, Önnu Mariu Torv 1967 til 1999, Wengi Deng 1999 til 2014 og Jerry Hall 2016 til 2022. Hann á sex uppkomin börn.
Murdoch er eigandi fjölmiðla á borð við Fox News, The Times of London og The Wall Street Journal. Auðæfi hans eru metin á um 17 milljarða bandaríkjadala, samkvæmt Forbes.