Sport

Conor McGregor hrósar Gunnari í há­stert: „Einn sá besti sem ég hef kynnst“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gunnar Nelson og Conor McGregor eru góðir vinir.
Gunnar Nelson og Conor McGregor eru góðir vinir. Jeff Bottari/Zuffa LLC/Zuffa LLC via Getty Images

Bardagakappinn Gunnar Nelson vann góðan sigur er hann mætti aftur í hringinn gegn Bandaríkjamanninum Bryan Barberena í O2 höllinni í London í gærkvöldi.

Gunnar kláraði Barberena strax í fyrstu lotu og hafði mikla yfirburði strax frá byrjun. Gunnar náði Barberena í gólfið þegar lotan var rúmlega hálfnuð og þá var þetta aðeins spurning um hvort sá bandaríski myndi ná að þrauka þangað til bjöllunni yrði hring. Svo var ekki og Gunnar vann góðan sigur við mikinn fögnuð áhorfenda.

Írski bardagakappinn Conor McGregor, sem er líklega þekktasta nafn UFC-heimsins, sendi Gunnari hamingjuóskir á Twitter-síðu sinni eftir að bardaganum lauk. Conor og Gunnar hafa oft æft saman og Conor segir Gunnar vera einn besta bardagakappa sem hann hafi nokkurn tíma kynnst.

„Til hamingju Gunnar Nelson. Einn besti bardagamaður sem ég hef nokkurn tíma kynnst persónulega. Þvílíkur bardagamaður sem Íslendingurinn er,“ ritaði Conor á Twitter.

Gunnar hefur nú unnið tvo bardaga í röð og verður áhugavert að fylgjast með hver næsti andstæðingur hans verður.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×