Innlent

Um 132 milljörðum af sér­eignar­sparnaði verið ráð­stafað í hús­næði

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Landsmenn hafa verið duglegir að nýta séreignarsparnaðinn.
Landsmenn hafa verið duglegir að nýta séreignarsparnaðinn. Vísir/Vilhelm

Um 81 þúsund manns hafa frá 2014 notað einhvern hluta séreignarsparnaðar síns til að greiða niður höfuðstól húsnæðislána. Samtals hafa 132 milljarðar af séreignarsparnaði verið nýttir til að greiða inn á lán eða vegna kaupa á fyrsta húsnæði.

Frá þessu greinir Morgunblaðið og vitnar í svör frá fjármálaráðuneytinu.

Tæplega 64 þúsund manns hafa nýtt sér úrræði stjórnvalda sem heimilar ráðstöfun viðbótariðgjalds til öflunar íbúðarhúsnæðis. Um 103 milljarðar hafa þannig verið greiddir inn á höfuðstól lána á tímabilinu en fimm milljarðar verið nýttir í útborgarnir.

Um 17 þúsund manns hafa nýtt séreignina til fyrstu íbúðakaupa og greitt 15 milljarða inn á höfuðstól lána og tæpa níu milljarða í útborganir.

Samkvæmt Morgunblaðinu hefur um það bil einn milljarður af séreignarsparnaði verið greiddur inn á höfuðstól fasteignalána um 20 þúsund einstaklinga í hverjum mánuði síðustu tvö ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×