Lífið

Kærasta Ingólfs segir yfir­lýsta femín­ista hafa í­trekað beitt sig of­beldi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ingólfur Þórarinsson og Alexandra Eir Davíðsdóttir.
Ingólfur Þórarinsson og Alexandra Eir Davíðsdóttir.

Alexandra Eir Davíðsdóttir segist ítrekað hafa verið beitt ofbeldi af hálfu hópa sem segjast berjast gegn ofbeldi og réttindum kvenna, einungis vegna þess hver maki hennar er. Hún segir þetta fólk hafa birt heimilisfang hennar opinberlega svo hægt væri að eggja húsið eða beita hana eða kærasta hennar líkamlegu ofbeldi. 

„Margir hafa bent mér á að láta þetta líða hjá og að reyna að telja upp á tíu. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef gert það en á endanum hverfur þolinmæðin. Mér finnst líklegt að flestir í minni stöðu væru löngu búnir að svara fyrir sig eða missa dampinn einhvers staðar á leiðinni. Ég sé ekki lengur ástæðu til þess að segja ekki neitt, ég væri búin að svara fyrir mig í öllum öðrum tilfellum. Eflaust hef ég ekki sagt neitt til að halda fólkinu í réttlætisbaráttunni góðu og verið hrædd við viðbrögðin.“

Svona hefst Facebook-færsla Alexöndru Eirar Davíðsdóttur sem hún birti í gærkvöldi. Alexandra er kærasta tónlistarmannsins Ingólfs Þórarinssonar, oftast þekktur sem Ingó Veðurguð, en Ingólfur hefur á samfélagsmiðlum verið sakaður um  kynferðisofbeldi og áreitni gagnvart konum. 

Málin hófust þannig að Öfgar, hópur femínískra aðgerðasinna, birti 32 nafnlausar frásagnir um meinta áreitni af hans hálfu á samfélagsmiðlinum TikTok. 

Ingólfur neitaði ásökununum en í kjölfar þeirra var hætt við að hann myndi sjá um brekkusönginn á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum líkt og hann hafði gert átta ár í röð. 

Ingólfur leitaði réttar síns gagnvart einstaklingum sem ýmist birtu frétt um ásakanirnar í fjölmiðlum eða tjáðu sig um þær á samfélagsmiðlum. Meðal þeirra var Ólöf Tara Harðardóttir sem er einn forsvarsmanna Öfga

„Er ÍBV svona hræddir að við að kynna til leiks mann sem nauðgar?“ sagði Ólöf Tara á samfélagsmiðlum. Hún neitaði að biðja Ingólf afsökunar og sagði hennar einu mistök í gegnum tíðina að hafa sungið með lögum Ingólfs.

Eitt mál Ingólfs fór fyrir dómstól, mál gegn Sindra Þór Sigríðarsyni Hilmarssyni sem tekist var á um í dómsal en Sindri var sýknaður. Ingólfur áfrýjaði dómnum til Landsréttar.

Vildi ekki tjá sig

Alexandra segir að þetta tímabil þar sem Ingólfur var sakaður um ofbeldi hafi verið ansi stormasamt. Margir af hennar verstu dögum hafi verið þá en einnig sá besti þar sem hún og Ingólfur eignuðust sitt fyrsta barn.

„Ég þekki það ekki að vera með mín persónulegu mál fyrir framan alþjóð en þurfti að venjast því á sama tíma og það var mikið hatur og heift í vissum hópum gagnvart maka mínum. Ég hef margsinnis verið dregin inn í umræðuna af þeim hópum og fjölmiðlum án þess að hafa neitt um það að segja og hefði helst kosið að svo hefði aldrei verið,“ segir Alexandra í færslunni. 

Hún segir að um leið og umræðan um málefni Ingólfs hafi hafist hafi hún verið dregin inn í hana „af konum og körlum sem öll kalla sig femínista“. Hún segir fólkið vera ýmsa hópa, einstaklinga eða samtök sem segja sig í harðri baráttu að jafnrétti, bættara samfélagi og gegn hvers konar ofbeldi. Þrátt fyrir það beiti þau hana endurtekið ofbeldi, aðallega á netinu. 

„Ég hef aldrei tjáð mig um þau mál sem komu upp með makann minn enda er það ekki mitt að gera, var aldrei og verður aldrei. Kannski urðu þau svona reið því ég tjáði mig ekki, tók ekki undir. Þögn í dag þykir það sama og að vera samþykkur ofbeldi eða öðru verra. Ástæðan mín var hins vegar einföld, ég var ekki sammála. Það var ekki mín upplifun og hefur ekki verið í okkar sambandi,“ segir Alexandra. 

Réttlæta ofbeldi gegn henni

Hún segir þessa aðila réttlæta það að beita hana ofbeldi þar sem hún sé maki einhvers. Þau hafi öll gert það á opinberum miðlum án þess að reyna að fela það á nokkurn hátt. Alexandra segir að oftar en tvisvar hafi heimilisfang þeirra verið birt á netinu. 

„Til þess eins að leiðbeina fólki hvert það ætti að fara til þess að beita líkamlegu ofbeldi, eggja húsið og einnig með ýmsar uppástungur af ljótum hrópyrðum sem væri gaman að nota fyrir þá sem hefðu áhuga á. Þetta setur ekki bara okkur í hættu heldur einnig nágranna og aðra í kring,“ segir Alexandra. 

Þá hafi verið stofnaður þráður á samfélagsmiðlum til að skiptast á skoðunum um hversu heimsk hún væri þrátt fyrir að vera sæt, rætt um hvort hún kynni ekki að lesa eða væri heyrnarlaus eða blind. 

„Einkennileg nálgun hjá femínistum og fólki sem berst fyrir minnihlutahópum en notar þá samt sem niðurlægingu. Hvernig ætti ung, sæt kona eins og ég að geta tekið ákvarðanir fyrir sjálfa mig? Ekki einu sinni hörðustu femínistar landsins hafa trú á því,“ segir Alexandra.

Erfiður tími

Tilkynnt var um óléttu Alexöndru þegar mál Ingólfs gegn Sindra var tekið fyrir. Hún segir fólk hafa rætt það að það væri ekki siðlegt að óska þeim til hamingju eða af þeim að fjölga sér almennt. 

„Allt gert til þess eins að reyna fá sem flest “like” frá liðsfélögum sínum og upphefja sig á kostnað mín og meðgöngunnar. Allar konur sem hafa gengið með barn vita það að þessi tími getur reynst mjög erfiður þrátt fyrir að lífið sé í ágætis jafnvægi. Ofan á allt sem er að gerast og breytast í líkama manns og tilfinningarússíbananum sem oft fylgir mundi ég ekki óska neinum að lenda í árásum frá svo hatursfullu fólki,“ segir Alexandra.

Hún segir að það hafi ekki verið nóg að Ingólfur hafi misst vinnu sína í tónlistinni og eigin rekstri heldur hafi þessir aðilar óskað eftir því að hún myndi heldur ekki fá að vinna. 

„Þær hafa reynt að ráðast á vinnuna mína og litla fyrirtækið mitt, margoft. Þær hafa ítrekað neitað fyrir þetta gagnvart fólki sem er í sviðsljósinu en hér er ég með persónulega reynslu og er ekki manneskja í sviðsljósinu. Ætli þeim liði ekki betur ef ég og makinn minn myndum missa allt, hefðum ekki í okkur og yfir né fyrir barnið okkar,“ segir Alexandra. 

Veita sér sjálfum frípassa

Að mati Alexöndru fá þeir í baráttunni gegn hverskonar ofbeldi frípassa fyrir því að beita ofbeldi. Oft sé betra að skoða sig sjálft áður en bent er á allt og aðra í kringum sig. Allir séu mistækir, sem og Alexandra.

„Ég er sem betur fer heppin að vera umkringd einstaklega mörgum flottum konum sem upphefja og styðja hvor aðra, bæði í fjölskyldunni og af vinkonum mínum. Ég er alin upp í kringum mikið af mögnuðum konum sem ég dáist að og hafa kennt mér margt það jákvæða og besta sem ég kann. Án þeirra og annarra í kringum mig veit ég ekki hvernig ég hefði komist í gegnum þetta allt. Ég vona svo sannarlega að sem flestar ungar konur hafi betri kvennfyrirmyndir í kringum sig en þær sem haga sér svona,“ segir Alexandra að lokum. 

Hér fyrir neðan má lesa færslu hennar í heild sinni. 

Þessi færsla verður löng en mér þætti vænt um að þið elsku vinir mynduð lesa hana

Margir hafa bent mér á að láta þetta líða hjá og að reyna að telja upp á tíu. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef gert það en á endanum hverfur þolinmæðin. Mér finnst líklegt að flestir í minni stöðu væru löngu búnir að svara fyrir sig eða missa dampinn einhverstaðar á leiðinni. Ég sé ekki lengur ástæðu til þess að segja ekki neitt, ég væri búin að svara fyrir mig í öllum öðrum tilfellum. Eflaust hef ég ekki sagt neitt til að halda fólkinu í réttlætisbaráttunni góðu og verið hrædd við viðbrögðin.

Lífið hefur verið ansi stormasamt síðustu 2-3 árin, margir af mínum verstu dögum en á sama tíma margir af þeim bestu. Sá allra besti var þegar ég fékk drenginn okkar, Þórarinn Ómar í fangið. Það er skrítið að vera fagna því besta og fallegasta í lífinu en á sama tíma vera upplifa svo erfiða tíma. Ég vill taka það fram að hér er ég bara að skrifa og svara fyrir mig en í einhverjum tilfellum barnið mitt líka.

Ég þekki það ekki að vera með mín persónulegu mál fyrir framan alþjóð en þurfti að venjast því á sama tíma og það var mikið hatur og heift í vissum hópum gagnvart maka mínum. Ég hef margsinnis verið dregin inn í umræðuna af þeim hópum og fjölmiðlum án þess að hafa neitt um það að segja og hefði helst kosið að svo hefði aldrei verið.

Þegar umræðan hófst var ég strax dregin inn í hana af konum og körlum sem öll kalla sig feminista. Allt eru þetta einstaklingar, hópar eða samtök sem segja sig í harðri baráttu að jafnrétti, bættara samfélagi og gegn hverskonar ofbeldi. Ég hef aldrei tjáð mig um þau mál sem komu upp með makann minn enda er það ekki mitt að gera, var aldrei og verður aldrei. Kanski urðu þau svona reið því ég tjáði mig ekki, tók ekki undir. Þögn í dag þykir það sama og að vera samþykkur ofbeldi eða öðru verra. Ástæðan mín var hinsvegar einföld, ég var ekki sammála. Það var ekki mín upplifun og hefur ekki verið í okkar sambandi.

Þetta fólk segist leggja líf sitt í að berjast gegn ofbeldi og fyrir réttindum kvenna þá sérstaklega, svo mikið að þau segjast uppgefin af sál og líkama. Þau hafa samt endurtekið beitt mig ofbeldi, aðallega á netinu og í sumum tilfellum barnið mitt líka. Undarleg hegðun af þeim sem telja sig gera heiminn að betri stað en réttlætanlegt af þeirra hálfu vegna þess að ég er maki einhvers. Öll hafa þau gert þetta á opinberum miðlum án þess að reyna fela það á nokkurn hátt.

-Þetta fólk hefur oftar en tvisvar sett heimilisfangið okkar inn á netið. Til þess eins að leiðbeina fólki hvert það ætti að fara til þess að beita líkamlegu ofbeldi, eggja húsið og einnig með ýmsar uppástungur af ljótum hrópyrðum sem væri gaman að nota fyrir þá sem hefðu áhuga á. Þetta setur ekki bara okkur í hættu heldur einnig nágranna og aðra í kring.

-Þau bjuggu til sérstakann þráð inn á twitter til að skiptast á skoðunum hversu heimsk ég væri þrátt fyrir að vera nú sæt. Hvort ég kynni ekki að lesa eða væri heyrnarlaus og blind. Einkennileg nálgun hjá feministum og fólki sem berst fyrir minnihlutahópum en notar þá samt sem niðurlæginu. Hvernig ætti ung, sæt kona eins og ég að geta tekið ákvaðanir fyrir sjálfa mig? Ekki einu sinni hörðustu feministar landsins hafa trú á því.

-Þau tóku það sérstaklega fyrir að ég ætti ekki skilið að heita Alexandra, ég væri ekki þess virði. Innan þeirra hóps ber stelpa sama nafn og ber það líklega með mikilli reisn. Það er sem sagt niðurlægjandi fyrir þá stelpu að bera sama nafn og ég. Kanski að þetta fólk sé með tillögur að nöfnum sem ég ætti skilið að bera verandi sú sem ég er.

-Þegar ég varð ófrísk tóku þau það sérstaklega fyrir margoft. Það væri ekki siðlegt að óska okkur til hamingju eða fjölga okkur almennt. Þau tóku það fyrir á sínum eigin miðlum og kepptust svo um að vera með sem mest niðurlægjandi og ógeðfelldar athugasemdir á fréttamiðlana sem tóku fréttirnar upp. Allt gert til þess eins að reyna fá sem flest “like” frá liðsfélgum sínum og upphefja sig á kostnað mín og meðgöngunnar. Allar konur sem hafa gengið með barn vita það að þessi tími getur reynst mjög erfiður þrátt fyrir að lífið sé í ágætis jafnvægi. Ofan á allt sem er að gerast og breytast í líkama manns og tilfinningarússíbananum sem oft fylgir mundi ég ekki óska neinum að lenda í árásum frá svo hatursfullu fólki.

-Þetta fólk tók það fyrir að óléttan mín hefði verið tilkynnt sérstaklega í dómssal til þess eins að draga athylgina frá þeim málum sem fóru þar fram. Allir sem sátu í þeim dómssal heyrðu skýrt og greinilega að svo var ekki, þar á meðal ég. Það voru hinsvegar fjölmiðlar í salnum sem ákvaðu að draga það fram sem helstu fréttir þessa dags, ekki við og hefðum aldrei viljað.

-Sagan var sú sama þegar dregnurinn okkar fæddist, þá kepptust þau um að skrifa ljóta og niðrandi hluti til að fá sem flest like. Ekki væri heldur við hæfi í þetta sinn að óska okkur til hamingju. Ótrúlegt að sjá ekki einu sinni sóma sinn í því að láta ekki lítið saklaust barn líða fyrir að þú komist í góða liðið.

-Það var ekki nóg að maki minn ætti að missa vinnuna sína hvort sem það var í tónlistinni eða ef hann vildi vera í eigin rekstri. Ég átti ekki heldur skilið að vinna. Þær hafa reynt að ráðast á vinnuna mína og litla fyrirtækið mitt, margoft. Þær hafa ítrekað neitað fyrir þetta gagnvart fólki sem er í sviðsljósinu en hér er ég með persónulega reynslu og er ekki manneskja í sviðsljósinu. Ætli þeim liði ekki betur ef ég og makinn minn myndum missa allt, hefðum ekki í okkur og yfir né fyrir barnið okkar.

Þetta eru aðeins örfá dæmi af fjölmörgum, ég gæti eflaust skrifað margar blaðsíður ef ég ætlaði að vitna í allt. Punkturinn er sá að eina fólkið sem ég hef fengið hatur, ofbeldi og leiðindi frá er fólkið sem berst harðast gegn því. Þetta færi ekki fyrir brjóstið á mér nema fyrir þá einföldu ástæðu að þetta fólk telur sig réttlætisriddara og reynir að telja öðrum trú um það. Þau eru með málstað í höndunum sem skiptir gríðalega miklu máli og eru að brenna hann upp.

Ég er kona og þekki flesta þá kosti og galla sem því fylgja því. Ég þarf ekki hvíta miðaldra karla sem kalla sig feminista til þess að segja mér hvað er rétt og rangt þar. Það er auðvitað ekki eitruð karlmennska að nota þennan málstað til þess eins að reyna auka sínar eigin vinsældir, með auknu áhorfi, aukinni hlustun eða auknum styrkjum frá ríkinu. Ef þessir menn væru virkilega að leggja inn vinnu í feminíska baráttu væri fyrsta skrefið að skoða þær konur sem taka þátt með þeim en þeir leggjast á sama plan. Þeir upphefja þessar konur og klappa fyrir öllu eineltinu sem þær skrifa eða taka þátt í því. Þeir horfa upp á þær beita ofbeldi, konu í mínu tilfelli og ég veit að ég er ekki sú eina. Allt er þetta réttanlegt fyrir málstaðinn, baráttuna og gegn kvennhatrinu sem ríkir.. Þau er á sama tíma hissa á hatrinu sem ríkir í samfélaginu og hvernig börnin koma fram við hvort annað, sérstaklega á netinu. En þetta eru fyrirmyndirnar. Eina fólkið sem skrifar niðrandi og ljóta hluti, hæðist af öðrum, taka aldrei málefnalega umræðu, taka aldrei gagnrýni nema að viðkomandi eigi að halda kjafti er þetta fólk. Allt snýst þetta um like og vinsældir á miðlunum, líf eða tilfinningar annarra skipta engu máli.

Allt hérna fyrir ofan flokkast kanski ekki sem ofbeldi. Ekki frekar en margt annað ef þú titlar þig sem baráttukonu eða karlfeminista.

Í baráttunni færðu frípassa og hefur leyfi til að beita öllu því ofbeldi sem þig langar. Fortíð þín skiptir engu máli, mistök eða hegðun, bara þeirra sem á að taka fyrir hverju sinni. Oft er betra að skoða sjálfan sig áður en maður bendir á allt og alla aðra í kringum sig, öll erum við mistæk þar á meðal ég.

Í dag virðist ekkert skipta máli, hvaða aðferðir eru notaðar, hvað er rétt eða rangt, hvaða hugtök og orð eru notuð yfir fólk eða hvernig er komið fram.

Verst finnst mér er að sjá fullorðið fólk, fjölmiðla, fyrirtæki og aðra upphefja þetta fólk eins og þau eigi þökk skilið fyrir alla góðu vinnuna sem þau hafa lagt fram. Ég og aðrar konur sem hafa lent í þeim skipta þar engu máli.

Ég er ekki að skrifa til að eiga í orðastríði við neinn á netinu, það er það síðasta sem ég vill og nenni. Ég er að skrifa þetta til að létta á mér. Ég hefði aldrei trúað því að svona vont fólk væri til og eflaust trúa því fæstir nema að lenda í þeim, kanski sem betur fer.

Ég er sem betur fer heppin að vera umkringd einstaklega mörgum flottum konum sem upphefja og styðja hvor aðra, bæði í fjölskyldunni og af vinkonum mínum. Ég er alin upp í kringum mikið af mögnuðum konum sem ég dáist að og hafa kennt mér margt það jakvæða og besta sem ég kann. Án þeirra og annarra í kringum mig veit ég ekki hvernig ég hefði komist í gegnum þetta allt.

Ég vona svo sannarlega að sem flestar ungar konur hafi betri kvennfyrirmyndir í kringum sig en þær sem haga sér svona.

-Alexandra






Fleiri fréttir

Sjá meira


×