Menning

Endur­skoða þurfi til­nefningar­nefnd Eddu­verð­launanna

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Sigríður Pétursdóttir, kvikmyndafræðingur, kallar eftir því að tilnefningarnefnd Edduverðlaunanna verði endurskoðuð.
Sigríður Pétursdóttir, kvikmyndafræðingur, kallar eftir því að tilnefningarnefnd Edduverðlaunanna verði endurskoðuð. samsett/vísir

Kvikmyndafræðingur sem segir að tilnefninganefnd Edduverðlaunanna hafi gengið fram hjá myndinni Skjálfta kallar eftir því að nefndin og mönnun hennar verði endurskoðuð. Hún vill að kvikmyndafræðingar fái aukið vægi auk erlendra aðila.

Líkt og svo oft áður hafa fjölmargir innan leikhúss, leiklistar og sjónvarpsbransans á Íslandi tjáð sig um tilnefningar til Edduverðlaunanna sem gefnar voru út á dögunum. Sérstaka athygli hefur vakið að kvikmyndin Skjálfti í leikstjórn Tinnu Hrafnsdóttur hafi ekki hlotið fleiri tilnefningar en raun ber vitni. Kvikmyndin hlaut mikið lof gagnrýnenda á kvikmyndahátíð í Tallin í Eistlandi og þótti leikkonan Aníta Briem sýna afburðarframmistöðu.

Fagmennska á öllum sviðum

Sigríður Pétursdóttir, kvikmyndafræðingur tjáði sig um málið á Facebook um helgina þar sem hún spyr hvers vegna Skjálfti hafi ekki fengið fleiri tilnefningar - en myndin var einungis tilnefnd í flokknum hljóð ársins og tónlist ársins.

„Fólki getur líkað við myndir eða líkað ekki við myndir, fundist þær skemmtilegar eða leiðinlegar eða hvað sem er. En þarna erum við að tala um fagmennsku á öllum sviðum og einstaka frumraun sem allt í einu er eins og bara gengið hafi verið fram hjá.“

Fjölmargir í bransanum taka undir með Sigríði sem segist hafa búist við því að myndin fengi tilnefningu fyrir leik Anítu og Eddu Björgvinsdóttur auk tilnefningar fyrir leikstjórn og handrit.

Kallar eftir endurskoðun 

Sigríður er þeirrar skoðunar að endurskoða þurfi tilnefningarnefndina og mönnun hennar.

„Ég er smá skeptísk á að það sé bara bransinn sem er í nefndinni því hann er svo lítill þessi bransi. Ég þekki hann svo vel og allir þekkja alla. Það er erfitt að fá fólk í nefndina því það er í verkum sjálft og það er líka erfitt að vera hlutlaus þegar vinir manns eru að gera mynd.“

„Þannig ég myndi gjarnan vilja sjá nefnd sem væri skipuð til helmings af kvikmyndafræðingum og bransafólki af því að nú eigum við fullt af kvikmyndafræðingum. Þetta er ekki eins og þegar ég var að byrja þegar við vorum teljandi á fingrum annarrar handar. Svo myndi ég gjarnan vilja að stór hluti nefndarinnar væri erlendur. Þetta er alveg framkvæmanlegt og þá held ég að það væri tekið meira mark á þessum verðlaunum.“

Oft halli á konur

Þá segir hún að oft halli á konur í tilnefningum.

„Ása Helga fékk virkilega verðskuldaðar tilnefningar, frábær myndin hennar en það var pínu eins og hún væri eina konan í mörgum flokkum sem fékk séns og svo voru hinir karlar.“


Tengdar fréttir

Kurr í menningar­bransanum vegna til­nefninga til Eddu­verð­launa

Margir aðilar innan leikhúss, leiklistar og sjónvarpssbransans á Íslandi hafa tjáð sig um tilnefningar til Edduverðlaunanna sem gefnar voru út á dögunum. Það hefur vakið sérstaka athygli að kvikmyndin Skjálfti í leikstjórn Tinnu Hrafnsdóttur hafi ekki hlotið fleiri tilnefningar en raun ber vitni.

Ver­búðin sópar að sér til­­­nefningum til Eddu­verð­­launa

Tilnefningar til Edduverðlaunanna 2023 voru tilkynntar í dag. Sjónvarpsþættirnir vinsælu Verbúðin hljóta flestar tilnefningarnar í ár en þar á eftir kemur kvikmyndin Svar við bréfi Helgu. Verðlaunin verða veitt í Háskólabíói þann 19. mars næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×