Innlent

Sakar SA um ger­ræði og boðar aðgerðir gegn verk­banni

Kjartan Kjartansson skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, vandar Samtökum atvinnulifsins ekki kveðjurnar í grein á Vísi. Í forgrunni er Halldór Benjamín Þorbergson, framkvæmdastjóri SA.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, vandar Samtökum atvinnulifsins ekki kveðjurnar í grein á Vísi. Í forgrunni er Halldór Benjamín Þorbergson, framkvæmdastjóri SA. Vísir/Arnar

Formaður Eflingar sakar Samtök atvinnulífsins um gerræðislegar hótanir með verkbanni á félagsmenn þess. Efling ætlar að boða til aðgerða til að mótmæla verkbanninu þegar það tekur gildi á fimmtudag.

Aðildarfélög samþykktu verkbann á fleiri en 20.000 félaga í Eflingu í síðustu viku. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði það neyðarúrræði til að bregðast við harðandi verkfallsaðgerðum Eflingar og áhugaleysi um að semja.

Í aðsendri grein sem birtist á Vísi í morgun segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, að í verkbanninu felist hótun um að félagsmenn verði sviptir launum frá og með fimmtudeginum.

„Áhrifamáttur þessarar aðgerðar er mikill af einfaldri ástæðu: fólk sem getur vart lifað af launum sínum getur augljóslega ekki lifað án þeirra. Samtök atvinnulífsins stóla á að það sé auðveldara að svelta fólk sem býr þegar við hungurmörk til hlýðni.“ skrifar Sólveig Anna.

Verkbannið snúist raunverulega um að sýna Eflingu og öðrum stéttarfélögum og stjórnvöldum hver ráði.

„Með því að taka lífsviðurværið af 20.000 fjölskyldum ætla Samtök atvinnulífsins að sýna hverjir það eru sem halda um tauma ógnarstjórnar á íslenskum vinnumarkaði.“ segir formaðurinn.

Spili sig sem einræðisherra

Samtök atvinnulífsins hafi reynt að spila sig sem „einræðisherra hins íslenska vinnumarkaðar“ sem láti eins og öllum sé skylt að framfylgja „gerræðislegum hótunum þeirra“, jafnvel atvinnurekendur sem standi utan samtakanna.

„Efling mun aldrei gefast upp fyrir ofbeldi og ógnarstjórn. Efling fordæmir verkbann Samtaka atvinnulífsins og mun berjast gegn því af alefli,“ skrifar Sólveig Anna.

Boðar hún aðgerðir í hádeginu á fimmtudag þegar verkbannið hefst. Öllum þeim sem lenda í verkbanninu sé boðið að taka þátt í þeim.

„Sterkasta afl verkafólks er fjöldinn og samstaðan og félagið mun sýna þann styrk í verki í baráttu gegn verkbanninu á næstu vikum,“ segir hún.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×