Innlent

Guð­mundur verður við beiðni Aðal­steins

Bjarki Sigurðsson skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. Vísir/Vilhelm

Vinnumarkaðsráðherra hefur samþykkt beiðni ríkissáttasemjara um að hann stígi til hliðar í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA). Tilnefndur verður aðstoðarsáttasemjari sem mun vinna að lausn deilunnar. 

Fréttablaðið greinir frá þessu. 

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari lagði til við Guðmund Inga Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, fyrr í dag að hann myndi stíga til hliðar sem sáttasemjari í deilu Eflingar og SA. Beiðnin kom í kjölfar þess að Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að Efling þyrfti ekki að afhenda sáttasemjara félagatal sitt vegna miðlunartillögu sem lögð var fram í deilunni. 

„Mín skoðun er sú að undir þeim kringumstæðum að þá beri persónan alltaf að víkja fyrir málefninu. þess vegna nefndi ég við félags- og vinnumarkaðsráðherra í dag að það kunni að vera skynsamlegt að skipa sérstakan sáttasemjara í þessari deilu, eða sáttanefnd. Þannig að ég stigi til hliðar í þessari tilteknu deilu og gefi keflið áfram til annarra að reyna að finna lausn fyrir samfélagið. Ráðherrann er væntanlega að velta því fyrir sér núna en það var mín tillaga,“ sagði Aðalsteinn í samtali við fréttastofu í dag. 

Guðmundur Ingi hefur nú orðið við beiðni Aðalsteins og mun aðstoðarsáttasemjari vera skipaður. Hann mun vinna að lausn deilunnar. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


×