Lífið

Ó­vænt endur­koma Kalla Bjarna á úr­slita­kvöldi Idol

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Kalli Bjarni kom óvænt fram á úrslitakvöldi Idolsins á föstudaginn.
Kalli Bjarni kom óvænt fram á úrslitakvöldi Idolsins á föstudaginn. Vísir/Vilhelm

Eins og vart hefur farið framhjá neinum var Saga Matthildur krýnd ný Idolstjarna Íslands á föstudaginn. Það ætlaði allt um koll að keyra þegar forveri hennar, Kalli Bjarni, var kynntur inn á svið sem óvænt skemmtiatriði.

Kalli Bjarni er fyrsta Idolstjarna Íslands en hann sigraði keppnina eftirminnilega árið 2004. Eftir sigurinn varð mikið að gera hjá Kalla. Þegar mest lét spilaði hann á níu stöðum á einni helgi.

Í viðtali við Vísi í nóvember sagði Kalli Bjarni álagið hafa reynst honum um megn. Hann villtist af braut og komst í kast við lögin. Hann hefur því látið lítið fyrir sér fara í tónlistinni síðustu ár.

Hefur engu gleymt

Í dag er Kalli Bjarni búinn að afplána sinn dóm. Hann segist vera kominn í gott jafnvægi, er sáttur við sjálfan sig og tilbúinn að láta til sín taka í tónlistarbransanum á nýjan leik.

Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar Kalli Bjarni var kynntur inn á svið á úrslitakvöldinu föstudaginn á meðan á símakosningunni stóð. Hann tók sigurlag sitt Mustang Sally og hafði augljóslega engu gleymt. Það sem toppaði flutninginn var þó hinn goðsagnakenndi rauðrósótti sigurjakki.

Hér fyrir neðan má sjá flutning Kalla Bjarna í heild sinni.

Klippa: Kalli Bjarni flytur Mustang Sally á úrslitakvöldi Idol 2023

Idolstjörnur vinna saman að nýrri tónlist

Kalli segir endurkomu Idolsins hafa kitlað gamlar taugar, sérstaklega vegna þess að hann fylgdist með sínum eigin syni taka þátt, og segist hann vera með einhver járn í eldinum.

„Ég er í samstarfi við hann Snorra Snorrason sem vann þriðja Idolið, ásamt Einari Bráðar, svona að búa til eitthvað sniðugt sem kemur með vorinu. Við sjáum hvernig það fer,“ sagði Kalli eftir flutninginn á föstudaginn.

Hildur Vala var einnig viðstödd

Kalli Bjarni var þó ekki eina Idolstjarnan í svæðinu á föstudaginn, því Hildur Vala, sigurvegari Idol 2005, var einnig í salnum.

Saga Matthildur sagði frá því að hún hefði verið mikill aðdáandi Hildar þegar hún var yngri. Hún minnist þess að hafa farið á Idolið sem barn og fengið eiginhandaráritun og mynd með Hildi Völu. Það lá því beinast við að endurtaka leikinn eftir að Saga hafði tekið við keflinu af átrúnaðargoðinu.

Idolstjörnurnar Hildur Vala og Saga Matthildur.Vísir/Vilhelm

Tengdar fréttir

Mynda­syrpa úr Idolinu: Sjáðu stemninguna

Það var mikið um dýrðir í Idolhöllinni í gærkvöldi þegar Saga Matthildur og Kjalar kepptu í úrslitum. Saga Matthildur bar sigur úr býtum og er ný Idol-stjarna Íslands.

Við­­brögð kepp­enda: Bjóst við því að Saga myndi vinna

Saga Matthildur sigurvegari Idolsins segist alls ekki hafa búist við sigri í Idolinu en Kjalar, sem keppti á móti henni á úrslitakvöldinu, var viss um að hún myndi bera sigur úr býtum. Bæði segjast þau ótrúlega þakklát.

Saga Matt­hildur vann Idolið

Saga Matthildur er Idol-stjarna Íslands. Hún keppti til úrslita í kvöld á móti Kjalari og bar sigur úr býtum.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.