Innlent

Fagnar því að „ógeðfelld og ljót krafa“ falli frá

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Vilhelm

Fósturvísum verður ekki eytt sjálfkrafa við skilnað eða andlát ef að frumvarp heilbrigðisráðherra nær fram að ganga. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem hafði lagt fram eigið frumvarp, fagnar málinu og segir þetta ógeðfellt ákvæði. Hún vill þó ganga lengra og telur tilefni til að skoða rýmri heimild fyrir því að gefa fósturvísa.

Um er að ræða frumvarp um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna. Frumvarpið var lagt í samráðsgátt stjórnvalda fyrir helgi og felur í sér breytingu á ákvæðum laganna sem kveða á um eyðingu kynfrumna og fósturvísa.

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fagnar frumvarpinu en hún lagði fram sitt eigið frumvarp á þar síðasta ári.

„Það er í núgildandi lögum, að mér finnst, mjög ógeðfelld og ljót krafa sem er um að þrátt fyrir skýran vilja fólks þá er lögð mjög skýr og bláköld krafa um að ef að fólk slítur samvistum, eða skilur, eða annar aðilinn andast þá má með engum undantekningum nýta viðkomandi til dæmis fósturvísa sem að fólk hefur lagt til hliðar í svona sinni vegferð við að reyna að eignast barn,“ segir Hildur.

Með áformuðum lögunum verður breyting þar á en Hildur vildi ganga ögn lengra í sínu frumvarpi og sleppa því að skilgreina sérstaklega sambúðarform.

„Þannig að það eina sem að skiptir máli er upplýst samþykki, skriflegt og vottað að sjálfsögðu, fólks á milli sem vill eignast börn. Það á auðvitað ekki að skipta máli ef það síðan býr ekki saman eða eitthvað slíkt, en frumvarp ráðherrans tekur ekki á því heldur eingöngu þessum efnisatriðum um andlát eða skilnað,“ segir hún.

Þá vildi hún auknar heimildir til að geyma og gefa fósturvísa.

„Það má gefa sæði og það má gefa egg en það má til dæmis ekki gefa tilbúin fósturvísi. Fyrir fólk sem er í mjög erfiðri stöðu þá getur tilbúinn fósturvísir verið algjört gull og ofboðslega sorglegt fyrir þá sem eru í þessari stöðu að mega ekki þiggja slíkt. Þannig ég vil til dæmis breyta því,“ segir Hildur og bætir við að einnig megi endurskoða kostnaðarliðinn.

Í grunninn séu þau þó sammála um að tryggja þurfi lágmarks og sjálfsögð réttindi.

„Ég hef ekki fundið neitt annað en bara virkilega jákvæð viðbrögð. Þannig að núna í framhaldinu, fyrst að frumvarp ráðherra er komið í samráðsgátt, þá munum við skoða kannski næstu skref,“ segir Hildur um framhaldið.

„Mitt frumvarp er nú þegar í velferðarnefnd, það er búið að taka við umsögnum og bíður nú gestakomu, að mér skilst. Þannig við skulum bara sjá í framhaldinu hvernig við vinnum þetta saman eða hvað við gerum, en við í stjórnarmeirihlutanum finnum eitthvað fallegt út úr því held ég,“ segir hún enn fremur.


Tengdar fréttir

Lög um tækni­frjóvganir mega ekki gera verk­efnið erfiðara

Í síðustu viku mælti ég fyrir frumvarpi mínu um aukið frelsi í löggjöf um tæknifrjóvganir. Ég lagði málið fyrst fram á síðasta þingi en það komst því miður ekki á dagskrá þá heldur nú í byrjun nýs þings eftir að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ákvað að setja málið fremst í röð þingmannamála.

Dýrkeypt að takast á við ófrjósemi

Um 70 ungir einstaklingar greinast árlega með krabbamein á Íslandi, öll standa þau frammi fyrir því að þurfa mögulega að glíma við ófrjósemi í framhaldinu. Á síðastliðnum dögum og vikum hafa tæknifrjóvgunarmál víða borið á góma í samfélaginu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×