Innlent

Fær bætur eftir að hafa fræst á sér hand­legginn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Maðurinn slasaðist illa við vinnu og hlaut 20 prósenta varanlegan skaða.
Maðurinn slasaðist illa við vinnu og hlaut 20 prósenta varanlegan skaða. Vísir/Vilhelm

Rafiðnaðarmaður, sem slasaðist illa þegar fræsari hrökk í handlegg hans við vinnu, fær greiddar bætur úr ábyrgðartryggingu Sjóvár. Sjóvá hafnaði ábyrgð og bar fyrir sig að um óhappaatvik hafi verið að ræða. 

Þetta segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem var upp kveðinn á mánudag. Slysið sem um ræðir varð 7. febrúar 2019 þegar rafiðnaðarmaðurinn var að fræsa með handfræsara fyrir rafmagnsröri í millivegg í húsi sem hann vann við og lenti með vinstri handlegg í tönn fræsarans og slasaðist. 

Atvinnurekandi hans hafði lagt honum til vinnutröppu til að standa á. Trappan var staðsett þannig að hún stóð á hlið við vegginn og stóð maðurinn í tröppunni og beitti fræsaranum á vegginn. Slysið varð þegar tönn fræsarans lenti á járnteini sem var inni í veggnum og við það hrökk fræsarinn frá veggnum og í handlegg mannsins. Hann hlaut mölbrot á fjærenda ölnarbeins í vinstri framhandlegg með miklum áverkum á sinar, vöðva, taugar og æðar. 

Maðurinn var óvinnufær frá 7. febrúar 2019 til 1. mars 2020. Varanlegur miski var metinn 20 prósent, þannig að áverkar á úlnlið voru metnir til 12 prósent miska og áverkar á vinstri ölnartaug 8 prósent. 

Vinnueftirlit og lögregla voru kölluð strax til á vettvang. Mat Vinnueftirlitið það svo að ekki hafi legið fyrir fullnægjandi áhættumat fyrir þann verkþátt sem tengdist slysinu. Þá megi rekja orsök slyssins til þess að ekki hafi verið notaður viðeigandi búnaður við verkið. Maðurinn hefði átt að nota lágan vinnupall en ekki tröppu til að standa á.

Sjóvá bar fyrir sig að um óhappatilvik hafi verið að ræða og maðurinn hafi sjálfur sýnt gáleysi við verkið. Vildi Sjóvá meina að þar sem maðurinn væri reynslumikill rafiðnaðarmaður hefði hann átt að vita betur. 

Dómurinn féllst að hluta til á málflutning Sjóvár - að maðurinn hefði átt að beita sér öðruvísi við verkið. Þannig var bótaskylda Sjóvár viðurkennd að hluta til. Sjóvá þarf að bæta manninum 2/3 tjónsins en hann að bera 1/3 tjóns síns sjálfur. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.