Menning

Rannsakar hlut kvenna í íslenskri listasögu næsta árið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aðalheiður Lilja Guðmundsdóttir er sjálfstætt starfandi fræðimaður. Hún nam heimspeki við Háskóla Íslands og listheimspeki við Université Paris I, Panthéon–Sorbonne. Á árunum 2010–2021 starfaði hún sem lektor og fagstjóri listfræða við myndlistardeild Listaháskóla Íslands.
Aðalheiður Lilja Guðmundsdóttir er sjálfstætt starfandi fræðimaður. Hún nam heimspeki við Háskóla Íslands og listheimspeki við Université Paris I, Panthéon–Sorbonne. Á árunum 2010–2021 starfaði hún sem lektor og fagstjóri listfræða við myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Listaháskóli Íslands

Aðalheiður Lilja Guðmundsdóttir hefur verið valin til að gegna rannsóknarstöðu við Listasafn Reykjavíkur sem hefur það að markmiði að rannsaka hlut kvenna í íslenskri listasögu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Listasafni Reykjavíkur.

Um er að ræða hálfa stöðu til eins árs í senn sem vinna má eftir samkomulagi. Er þetta í annað sinn af þremur sem auglýst er en sýningin Hildur Hákonardóttir: Rauður þráður var opnuð þann 14. janúar á Kjarvalsstöðum og er afrakstur fyrstu rannsóknarstöðunnar sem Sigrún Inga Hrólfsdóttir hlaut fyrir árið 2022. Rannsóknarstaðan, sem unnin er í samstarfi við við Háskóla Íslands, hlaut þriggja ára öndvegisstyrk Safnaráðs.

Átta sáttu um stöðuna sem var auglýst í nóvember síðastliðnum.

„Bera þær allar með sér að tækifæri eru til rannsókna á sviði íslenskrar listasögu og á hlut kvenna í mótun hennar,“ segir í tilkynningunni.

Sérstakt fagráð skipað fulltrúum safnsins og Háskóla Íslands hefur nú valið úr innsendum tillögum og valdi að bjóða Aðalheiði Lilju Guðmundsdóttur stöðuna og er það rannsókn hennar á list Borghildar Óskarsdóttur sem þar liggur til grundvallar.

„Borghildur hefur verið virk í íslensku myndlistarsamfélagi frá því um miðja síðustu öld. Enn er mikið ósagt, óþekkt og órannsakað um konur sem hófu listferil sinn upp úr miðri síðustu öld. Borghildur er ein af þeim sem hefur unnið staðföst að listsköpun sinni í gegnum þessa áratugi og vert er að gefa gaum í listasögulegu jafnt sem femínísku samhengi. Hún vinnur verk sín í fjölbreytilega miðla listsköpunar; grafík, teikningar, texta, málverk, höggmyndir, ljósmyndun, vídeó, hljóð, bókverk, innsetningar, gjörninga og þannig mætti lengi telja. En leir, sem efniviður, er þó eins og rauður þráður í gegnum höfundarverk hennar. Rannsókn Aðalheiðar á list Borghildar lýkur með sýningu á Kjarvalsstöðu og veglegri útgáfu sýningarskrár,“ segir í tilkynningunni.

Aðalheiður Lilja Guðmundsdóttir er sjálfstætt starfandi fræðimaður. Hún nam heimspeki við Háskóla Íslands og listheimspeki við Université Paris I, Panthéon–Sorbonne. Á árunum 2010–2021 starfaði hún sem lektor og fagstjóri listfræða við myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Ásamt kennslu- og fagstjórastarfinu hefur hún sinnt ýmsum verkefnum á fagsviðum listfræða og myndlistar, þar á meðal rannsóknum, skrifum, opinberum fyrirlestrum, sýningargerð og nefndarstörfum á Norðurlöndum og í Frakklandi. Rannsóknir Aðalheiðar Lilju eru meðal annars á sviði bókverkagerðar myndlistarmanna og kynjafræða.

Rannsóknarstaða við Listasafn Reykjavíkur fyrir árið 2024 verður auglýst síðari hluta árs 2023.


Tengdar fréttir

Markmiðið er að heiðra myndlistarmenn hér á landi

Myndlistarráð hefur tilkynnt tilnefningarnar í forvalinu til Íslensku myndlistarverðlaunanna 2021. Veitt eru veitt í tveimur flokkum, myndlistarmaður ársins og hvatningarverðlaun ársins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×