Þetta hefur ET fengið staðfest frá talsmanni fjölskyldunnar. Segir hann að hin 33 ára Riley Keough og hinir fjórtán ára tvíburar, Finley og Harper Lockwood, muni erfa húsið.
Lisa Marie Preseley lést í Kaliforníu síðastliðinn föstudag eftir að hafa farið í hjartastopp. Hún var eina barn Elvis Presley og varð 54 ára gömul.
Fyrr í vikunni var tilkynnt að Lisa Marie verði jarðsett í grafreit á lóð Graceland, við hlið sonar síns, Benjamin Keough, sem lést árið 2020 og föður síns, Elvis, sem lést í ágúst 1977.

Presley gekk fjórum sinnum í hjónaband. Fyrst giftist hún tónlistarmanninum Danny Keough, og með honum eignaðist hún börnin Riley og Benjamin.
Riley er þekkt leikkona en Benjamin svipti sig lífi árið 2020, aðeins 27 ára gamall. Presley sagði á sínum tíma að hún væri eyðilögð eftir fráfall sonar síns.
Skömmu eftir skilnaðinn við Keough giftist Presley tónlistarmanninum Michael Jackson en það hjónaband varði einungis í hálft annað ár.
Árið 2002 giftist Presley leikaranum Nicolas Cage en Cage sótti um skilnað í nóvember sama ár. Árið 2006 gekk hún svo í hjónaband með gítarleikaranum Michael Lockwood og eignaðist með honum tvíburana Harper og Finley. Presley og Lockwood voru gift í tíu ár, áður en hún sótti um skilnað.