Menning

Chanel Björk segir skilið við Kastljósið og lætur drauminn rætast

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Chanel Björk fyrir utan nýja heimilið sitt í London.
Chanel Björk fyrir utan nýja heimilið sitt í London. Aðsend

Fjölmiðlakonan Chanel Björk stendur á tímamótum um þessar mundir. Blaðamaður ræddi við Chanel en hún er nýflutt til London sem hana hefur lengi dreymt um að gera.

Erfitt að hætta í draumastarfinu

„Það hefur verið langþráður draumur hjá mér að prófa að búa í London, ég ákvað að taka af skarið og taka þessa áhættu að einhverju leyti. Mér finnst áhættan alltaf geta leitt til hins betra, þannig vonandi kemur eitthvað stærra og enn meira spennandi út úr þessu.“

Chanel hefur verið í Kastljósinu á RÚV og þótti henni erfitt að segja skilið við það.

„Þetta var náttúrulega stórkostlegt ár í Kastljósi og það var frábært að vera hluti af þessu teymi og fá tækifæri til þess að koma mínu áleiðis á þessum vettvangi í fjölmiðlum í landinu, þá sérstaklega hvað fjölmenningu og fjölbreytileika varðar. Það var frekar erfið ákvörðun að segja skilið við Kastljósið þar sem það er að einhverju leyti draumastarfið mitt.“

Innblástur úr allsráðandi fjölmenningu

Chanel segist þó hafa fundið það hjá sér að nú væri rétti tíminn fyrir breytingar í hennar lífi en hún er fædd og uppalin í Englandi og eyddi heilu sumri í London þegar hún var í námi úti.

„Ég fann að mig vantaði að breyta um umhverfi, að vera í umhverfi þar sem er meira um fjölbreytileika og fjölmenningu. Ég þráði svolítið að fá innblástur úr svoleiðis umhverfi þannig ég er bara svolítið að sækja mér innblástur í London. 

Fjölmenningin er allsráðandi í þessari borg og ég hlakka til að koma heim eftir nokkur ár með nýjar hugmyndir og betrum bæta samfélagið með því sem ég hef lært hvað fjölmenningu varðar.“
Chanel Björk hlakkar til nýrra tíma í London. Aðsend

Með annan fótinn á Íslandi

Chanel bætir við að það hafi hitt mjög vel á að kærastinn hennar, Snorri Már, fékk vinnu í London í fyrra.

„Þannig þetta er rétta skrefið fyrir okkur núna. Ég verð þó með annan fótinn á Íslandi til þess að byrja með, kem heim nokkuð oft á næstu mánuðum til að halda fræðslur eins og ég hef verið að gera síðustu ár.“

Chanel heldur uppi heimasíðunni Mannflóran og heimsækir skóla og fyrirtæki með fræðslu.

„Svo er ég að leggja lokahönd á sjónvarpsþættina Mannflóran sem verða sýndir á RÚV í vor.

Þessir þættir eru svolítið byggðir á útvarpsþáttum sem ég var með á RÚV fyrir nokkrum árum og fjalla í raun bara um fjölmenningu í íslensku samfélagi. Samfélagið okkar er að breytast mjög mikið, með fjölgun innflytjenda og flóttamanna. Svo eru margir sem eru eins og ég, Íslendingar með erlendan bakgrunn.“

Chanel telur þann hóp einnig fara stækkandi og bætir við að fjölmenningin sé að verða stærri partur af hversdagsleikanum okkar.

„Það býður upp á frábær og spennandi tækifæri en verður líka til þess að það koma upp áskoranir út frá því að þetta sé eitthvað nýtt fyrir marga á Íslandi. 

Þegar fólk er að kynnast einhverju nýju hefur það kannski fyrirframgefnar hugmyndir eða skortir þekkingu. 

Sjónvarpsþættirnir Mannflóran er vettvangur til að koma þessu samtali af stað, fagna fjölmenningunni en á sama tíma varpa ljósi á þessar áskoranir sem fólk af erlendum uppruna á íslandi er að mæta.“


Tengdar fréttir

„Það er ekkert sem er manni óviðkomandi“

Chanel Björk er baráttu- og fjölmiðlakona sem berst fyrir fjölbreytileika þjóðarinnar. Hún var valin í hóp topp tíu framúrskarandi ungra Íslendinga árið 2021 og lýsir sér meðal annars sem miklum pælara. Chanel Björk er viðmælandi vikunnar í Innblæstrinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×