Innlent

Fann harð­gerðar kindur sínar sem höfðu verið á kafi í snjó í tvo sólar­hringa

Atli Ísleifsson og Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifa
Harðgerðar kindur fluttar lein á Leiðólfsstaði í Laxárdal.
Harðgerðar kindur fluttar lein á Leiðólfsstaði í Laxárdal. Aðsend

„Þær eru í toppstandi. Mjög harðgerðar kindur,“ segir Bjarni Hermannsson, bóndi á Leiðólfsstöðum í Laxárdal, austur af Búðardal í Dalabyggð, sem fann þrjár kindur sínar á kafi í snjó á fjalli skammt frá bænum skömmu fyrir jól.

Sonur Bjarna sagði frá ævintýrum kindanna í Facebook-hópnum Sauðfjárbændur fyrr í vikunni. Kindurnar höfðu þá fundist í hlíðum Ljárskógafjalls, við ána Fáskrúð, í aðdraganda jóla. 

Ein kindin var á kafi í tveggja metra holu.Aðsend

„Ég vissi um þær og fór að gá að þeim. Bróðir minn sá kindurnar áður en hríðin skall á svo ég fór að leita að þeim og fann þær,“ segir Bjarni.

Bjarni segir að hann hafi komið að þeim þar sem þær væru tvær að hluta upp úr snjónum. „Þær voru tvær sem voru að hluta upp úr snjónum, aðeins fenntar í snjó. En svo var eitt lamb sem var alveg á kafi sem ég þurfti að moka upp. Ég held að hann hafi verið á tveggja metra dýpi; lambhrútur.“

Bjarni segir að þær hafi orðið eftir á fjallinu í haust. „Ég hugsa að þær hafi verið fastar í snjónum í svona tvo sólarhringa. En það er í góðu lagi með þær.“

Aðspurður um hvort hann hafi tekið eftir einhverri tófu í nágrenni kindanna segir hann að svo hafi ekki verið. „Hrafninn var hins vegar byrjaður að sveima yfir þeim,“ segir Bjarni.

Frá vettvangi í Ljárskógafjalli.Aðsend


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×