Innlent

Sam­fé­lagið á Reyðar­firði lamað vegna mjög al­var­legrar raf­magns­bilunar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ýmis starfsemi liggur niðri á Reyðarfirði í dag vegna rafmagnsleysis.
Ýmis starfsemi liggur niðri á Reyðarfirði í dag vegna rafmagnsleysis. Vísir/Vilhelm

Rafmagnslaust hefur verið á Reyðarfirði í morgun og lítur út fyrir að bilunin sé mjög alvarleg. Útlit er fyrir rafmagnsleysi fram á kvöld. 

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef RARIK. Þar segir að unnið sé að flutningi varaafls víða af landinu. Engin hitaveita er á Reyðarfirði heldur treysta íbúar á rafmagn til húshitunar.

Ýmis starfsemi liggur niðri á Reyðarfirði vegna rafmagnsleysisins. Þannig er lokað á Olís á Reyðarfirði og sömuleiðis í Lyfju. Þá er Vínbúðin lokuð og bæjarskrifstofurnar.

Þjónusta á heilsugæslunni er í lágmarki þar til rafmagn kemur á aftur. 

Álverið á Reyðarfirði er á annarri línu og því gengur starfsemi þar eðlilega fyrir sig.

Gul veðurviðvörun er í gangi á Austfjörðum í allan dag og fram á nótt.

Uppfært klukkan 13:38.

Fulltrúar Fjarðabyggðar hafa nú fundað með Rarik vegna rafmagnsleysisins. Fundað verður aftur klukkan 16:00. Þetta kemur fram í tilkynningu

Ljóst er að alvarleg bilun varð í spenni á stuðlum og vinnur starfsfólk Rarik að greiningu. Búist er við því að rafmagnsleysið muni í það minnsra standa í nokkrar klukkustundir til viðbótar. Varaspennir er á leið frá Akureyri en færðin ræður því hversu fljótt tekst að koma honum á staðinn. 

Fólk sem þarf  á aðstoð að halda er hvatt til að hafa samband við skrifstofu Fjarðabyggðar í síma 470 9000.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×