Innlent

Jóla­gjafir ís­lenskra vinnu­staða: Gjafa­bréf upp á 100 þúsund, frí­dagar og matar­pakkar

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Vísir tók saman lista yfir jólagjafir íslenskra fyrirtækja til starfsmanna.
Vísir tók saman lista yfir jólagjafir íslenskra fyrirtækja til starfsmanna. Vísir/Getty

Það kenndi ýmissa grasa í jólagjöfum íslenskra fyrirtækja þetta árið. Gjafabréf eru ávallt vinsæl og þá hefur færst í aukana að fyrirtæki bjóði starfsfólki þann valkost að gefa andvirði gjafar til góðgerðamála. Vísir tók saman hvað leyndist í jólapökkunum hjá starfsmönnum íslenskra fyrirtækja og stofnana nú í ár.

Starfsmenn Reykjavíkurborgar fengu Visa gjafakort með inneign upp á 10 þúsund krónur. Þá fengu starfsmenn Akureyrarbæjar 12.500 króna gjafabréf frá Niceair. Seltjarnarnesbær hefur farið þá leið undanfarin ár og þannig var það líka núna að bjóða starfsfólki að velja á milli nokkurra ólíkra kosta. Þetta árið gátu starfsmenn valið á milli gjafakorta hjá: 66° Norður, Óskaskrín og á veitingastöðunum Ráðagerði og Rauða Ljóninu á Seltjarnarnesi. Seltjarnarbær greiðir 15.000 kr. fyrir hvert gjafabréf en virði þeirra er hins vegar meira fyrir starfsmennina. Starfsmenn Garðabæjar fengu tvo frídaga og inneignarkort hjá Arionbanka.

Gjafabréf frá 66° Norður vinsæl

Þá gat starfsfólk Landspítalans valið á milli sex rafrænna gjafabréfa: frá Kjötkompaní, Hvammsvík, Rauða Krossinum, LÍN Design eða Brauð & Co.

Jólagjöf Seðlabanka Íslands til starfsmanna í ár var úttekt í gegnum gjafakortið YAY fyrir 25 þúsund krónur. Auk þess keypti bankinn súkkulaði fyrir kr. 3.900 á mann af félagasamtökum sem styrkja með því Umhyggju til að bæta hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra.

Þá fékk starfsfólk Veðurstofu Íslands 20 þúsund króna inneign í 66° Norður og starfsmenn Sinfóníuhljómsveitar Íslands fengu hleðslubanka frá Álfagulli og fallegar servíettur.

Flugfélögin gerðu einnig vel við sitt starfsfólk. Icelandair gaf starfsfólki 25.000 króna gjafakort í Kringluna og sápu frá Urð á meðan starfsmenn Play fengu ferðatösku og gjafabréf frá 66° Norður.

Þá fengu starfsmenn Íslandsbanka 60 þúsund króna gjafabréf í Smáralind og tvo frídaga að auki. Starfsfólk Kviku banka fékk peningagjöf upp á 75 þúsund krónur og einn frídag.

Starfsmenn Torgs fjölmiðlasamsteypunnar fengu 25 þúsund króna gjafabréf í Kringluna. Þá fengu starfsmenn Marel 50 þúsund króna inneign, einnig hjá Kringlunni, og tvo frídaga milli jóla og nýárs.

Samherji hefur í gegnum tíðina gefið nokkuð veglegar jólagjafir.  Gjöfin í ár er vegleg matarkarfa, sem inniheldur kjöt, fisk og vel valin önnur matvæli ásamt öðru góðgæti. Starfsfólk Eimskip fékk 40 þúsund króna Visa gjafakort og viskustykki.

Starfsmenn Símans fengu 75 þúsund króna inneign sem nýta má annað hvort hjá Play eða S4S.

Eins og undanfarin ár gefur Landsvirkjun starfsfólki sínu val um jólagjafir, sem eru allar að sama verðmæti. Í ár var hægt að velja um gistingu á hóteli, gjafakort í sérverslun fyrir útivistarfólk eða gjafakort í Smáralind. Verðmæti gjafakortanna er 40 þúsund krónur.

Þá fengu starfsmenn Össurar fengu 40 þúsund króna inneign í Kringluna og þar að auki tvo bíómiða og frí fyrir deildina þann 30.desember næstkomandi. Hjá Alcoa fjarðarál fengu starfsmenn veglegan matarpakka með ýmsu góðgæti.

100 þúsund króna Visa gjafakort

Starfsfólk OR samstæðunnar gat valið um jólagjafir frá nokkrum fyrirtækjum að verðmæti 15 þúsund krónur. Hjá Advania stóð valið á milli gjafabréfs hjá S4S, Fiskfélagsins, Laugarspa og góðgerðarmála. Að auki fengu allir einn frídag um hátíðirnar.

Starfsfólk Gleðipinna fékk unisex vatnshelda snyrtitösku frá 66° Norður og Quality Street dós. Þá fengu starfsmenn Mannvits Visa gjafakort með inneign upp á 100 þúsund krónur.

Starfsmenn Motul fengu 100 þúsund króna gjafabréf á Glerártorgi og þá fengu starfsmenn Wise lausna fengu 40 þúsund króna gjafabréf, Nespresso kaffi og einn frídag.  Þá fengu starfsmenn Attentus mannauðsráðgjafastofu gjafabréf frá íslenska hönnunarfyrirtækinu As we grow.

Freyja gaf starfsmönnum sínum 20 þúsund króna bankakort og út að borða á Grand Hótel. Starfsfólk Joroma, hugbúnaðarhúss, fékk 30 þúsund króna Vísa inneignarkort, gjafaöskju frá Hugleiki Dagssyni og einn frídag. Þá fengu starfsmenn stefnumótaforritisins Smitten 65 þúsund króna bankakort. Starfsmenn á hjúkrunar- og öldrunarhemilinu Grund fengu 22 þúsund króna gjafabréf í 66°Norður.

Þessi listi er langt frá því að vera tæmandi yfir þær jólagjafir sem íslenskir vinnustaðir gáfu starfsfólki sínu. Sendu okkur endilega upplýsingar á ritstjorn@visir.is ef þú hefur einhverju við listann að bæta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×