Lífið

Bieber æfur H&M vegna Bieber-línunnar

Árni Sæberg skrifar
Íslandsvinurinn Justin Bieber er ekki sáttur.
Íslandsvinurinn Justin Bieber er ekki sáttur. Jason Merritt/Getty Images

Justin Bieber er ekki sáttur með sænska fatarisann H&M eftir að sá síðarnefndi gaf út fatalínu merkta kappanum. „H&M varningurinn sem þeir bjuggu til af mér er drasl og ég samþykkti hann ekki,“ segir poppstjarnan.

Bieber tjáði óánægju sína á hringrás sinni á samfélagsmiðlinum Instagram í gær. Í samræmi við eðli hringrásarinnar er tjáning Biebers nú tröllum gefin en fréttamaður CNN náði að hripa niður það sem hann sagði.

Þessi forláta hettupeysa er hluti línunnar sem Bieber er ósáttur með.H&M

„Ég samþykkti ekki neitt varðandi varningslínuna sem þeir settu í sölu hjá H&M. Þetta var allt gert án míns leyfis og samþykkis. Ég myndi ekki kaupa neitt af þessu ef ég væri þið,“ segir Bieber.

Í annarri hringrásarfærslu bætir hann í og segir vörurnar drasl og hvetur fylgjendur sína til að sniðganga þær.

Í svari við fyrirspurn CNN segir talsmaður H&M að Bieber fari ekki með rétt mál. Fyrirtækið hafi fylgt öllum lögum og reglum hvað varðar öflun samþykkis fyrir notkun persónulíkinda. Það geri fatarisinn ávallt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×