Innlent

Skora á rekstrar­aðila að loka spila­kössum yfir jól og ára­mót

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Samtök áhugafólks um spilafíkn ítreka fyrri áskoranir um að spilakössum verið lokað til frambúðar
Samtök áhugafólks um spilafíkn ítreka fyrri áskoranir um að spilakössum verið lokað til frambúðar visir/anton brink

Samtök áhugafólks um spilafíkn skora á rekstraraðila spilakassa að loka spilakössum sínum dagana yfir jólahátíðina og áramót. Samtökin benda á að jól og áramót eru hátíð kærleika, friðar og samveru með fjölskyldu, börnum og ástvinum og að með þessu móti geti allir sameinast um að láta spilakassana ekki spilla hátíðunum.

Í mars á síðasta ári var settur á laggirnar starfshópur innan Háskóla Íslands sem fékk það verkefni að greina álitaefni tengd tekjuöflun Happdrættis HÍ.

Í skýrslu starfshópsins kemur meðal annars fram að skoðanakönnun sem Samtök áhugafólks um spilafíkn (SÁS) lét gera í apríl-maí 2020 um viðhorf almennings til spilakassa, leiddi í ljós að um 86 prósent Íslendinga vilji banna slíkan rekstur. Þá kemur fram að 71 prósent aðspurðra voru ósátt við að starfsemi í almannaþágu væri fjármögnuð með rekstri spilakassa.

Þá kemur fram í niðurstöðum að ljóst sé að tekjur frá HHÍ eru mikilvægar fyrir uppbyggingu innviða HÍ. Hins vegar sé einnig ljóst að viðhorf almennings til spilakassa er neikvætt og ætla megi að gagnrýnisraddir verði sífellt háværari. 

Niðurstöður innlendra og erlendra rannsókna sýna einnig fram á skýr tengsl milli spilavanda og notkunar spilakassa.

Skref í rétta átt

Í fyrrnefndri áskorun Samtaka áhugafólks um spilafíkn kemur fram að niðurstöður starfshóps HÍ staðfesti það sem SÁS hafa haldið fram þ.e. að spilafíklar standa að verulegum hluta undir heildartekjum spilakassareksturs.

„Samtök áhugafólks um spilafíkn ítreka fyrri áskoranir um að spilakössum verið lokað til frambúðar en myndu fagna lokun spilakassa yfir hátíðarnar sem mikilvægum áfanga, skrefi í rétta átt.“

Er því skorað á Happdrætti Háskóla Íslands, Háskóla Íslands, Íslandsspil, Rauða krossinn á Íslandi og Landsbjörg að loka spilakössum sínum yfir hátíðirnar, 15 desember til 5 janúar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×