Innlent

Ráðning deildar­stjóra hjá Sam­göngu­stofu ekki lög­mæt

Bjarki Sigurðsson skrifar
Staðan var auglýst fimm mánuðum áður en einstaklingur sem hafði ekki sótt um stöðuna var ráðinn.
Staðan var auglýst fimm mánuðum áður en einstaklingur sem hafði ekki sótt um stöðuna var ráðinn. Vísir/Vilhelm

Ráðning Samgöngustofu á deildarstjóra upplýsingatæknideildar var ekki í samræmi við lög að mati umboðsmanni Alþingis. Einstaklingurinn sem fékk starfið var ekki meðal umsækjenda þegar staðan var auglýst. 

Í desember 2021 var staða deildarstjóra upplýsingatæknideildar Samgöngustofu auglýst. Þegar því ráðningaferli lauk var hæfasta umsækjandanum boðið starfið en hann afþakkaði það. Því var ákveðið að ráða engan í starfið að svo stöddu. 

Í maí árið 2022, fimm mánuðum síðar, réði þó stofnunin utanaðkomandi mann í starfið sem hafði ekki sótt um það þegar það var auglýst. Einn þeirra sem sóttu um starfið kvartaði til umboðsmanns Alþingis og taldi ráðninguna ekki vera lögmæta. 

Við meðferð málsins upplýsti Samgöngustofa að stofnuninni hafi borist til eyrna að hæfur maður í starfið vildi skipta um starfsvettvang. Því var hann ráðinn í það, tímabundið til tveggja ára, án þess að auglýsa það á ný. 

Heimild er í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna um að ráða megi starfsmenn tímabundið til tveggja ára. Að mati umboðsmanns Alþingis er það án þýðingar vegna skyldu stjórnvalds til að auglýsa laust starf. Þó eru undantekningar á því ákvæði en ráðning Samgöngustofu uppfyllti enga af þeim undantekningum. 

Því mat umboðsmaður sem svo að ráðningin hafi ekki verið í samræmi við lög. Hann beindi tilmælum til Samgöngustofu um að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í áliti hans. 

Hægt er að lesa álit umboðsmanns í heild sinni hér. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×