Innlent

Úti­lokar ekki að hafa átt ó­form­leg sam­töl vegna van­virðandi fram­komu ráð­herra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Forsætisráðherra virðist ekki útiloka það í svörum sínum við fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, að starfsmenn Stjórnarráðsins hafi leitað til hennar óformlega vegna vanvirðandi framkomu af hálfu annarra ráðherra.

Í fyrirspurninni spurði Helga Vala meðal annars að því hvert starfsmenn ráðuneyta gætu leitað ef þeir teldu sig hafa orðið fyrir vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra, svo sem einelti, áreitni, eða annars konar ofbeldi.

Í svörum forsætisráðherra var vísað til þess ferlis sem mál færu í samkvæmt fornvarna- og viðbragðsáætlun Stjórnarráðsins vegna EKKO (eineltis, kynbundins áreitis, kynferðislegrar áreitni, ofbeldis).

Þá spurði Helga Vala einnig að því hvort forsætisráðherra hefði verið upplýst, formlega eða óformlega, um að ráðherrar hefðu sýnt af sér slíka háttsemi. Ef svo væri, hver viðbrögð ráðherrans hefðu verið og í hvaða farveg málin hefðu verið sett.

Í svörum ráðherra segir að hún hafi ekki verið upplýst formlega um vanvirðandi háttsemi ráðherra.

„Að því er varðar óformleg samskipti er til þess að líta að til Katrínar Jakobsdóttur er stundum leitað í krafti vináttu og persónulegra tengsla og á hún oft og tíðum trúnaðarsamtöl við fólk, m.a. um samskipti á jafn fjölmennum vinnustað og Stjórnarráð Íslands er,“ segir í svörunum.

„Ráðherra hefur litið svo á að þegar leitað er til hennar sem trúnaðarvinar þá sé um persónuleg málefni að ræða sem alla jafna kalli ekki á að hún setji þau í farveg stjórnsýslumála, nema óskað sé eftir því. Sé hins vegar grunur um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi er leitast við að leiðbeina viðkomandi um réttan farveg þessara mála á grundvelli framangreindrar viðbragðsáætlunar Stjórnarráðsins um EKKO.“

Þá kemur fram í svörum ráðherra að forsætisráðuneytið greiddi 370 þúsund krónur vegna sálfræðiviðtala fyrir starfsmenn árið 2022, 650 þúsund krónur árið 2021 og 1,2 milljónir árið 2020.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×