Menning

Fullveldisbækur afhentar forseta Alþingis

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Jón Sigurðsson, fráfarandi forseti Hins íslenska bókmenntafélags, og Ármann Jakobsson, forseti félagsins, afhentu Birgi Ármannssyni, forseta Alþingis bækurnar.
Jón Sigurðsson, fráfarandi forseti Hins íslenska bókmenntafélags, og Ármann Jakobsson, forseti félagsins, afhentu Birgi Ármannssyni, forseta Alþingis bækurnar. Mynd/Samsett

Útgáfu tveggja bóka var fagnað við hátíðlega athöfn í Skála Alþingis í gær en samið var um útgáfu þeirra árið 2018 í tilefni 100 ára afmælis fullveldis Íslands. Um er að ræða samstarfsverkefni Alþingis og Hins íslenska bókmenntafélags. 

Annars vegar er um að ræða ritið Þingvellir í íslenskri myndlist en í bókinni er að finna ítarlegt yfirlit um íslenska myndlist tengda Þingvöllum og geymir hún 269 Þingvallamyndir eftir 104 listamenn. Ritstjórar eru Aðalsteinn Ingólfsson og Sverrir Kristinsson. 

Forseti Alþingis tekur við ritinu Þingvellir í íslenskri myndlist af fráfarandi forseta Hins íslenska bókmenntafélags. Mynd/Aðsend

Hins vegar er um að ræða ritið Íslenskar bókmenntir - saga og samhengi, sem er nýtt yfirlitverk um sögu íslenskra bókmennta frá landnámi til tuttugustu og fyrstu aldarinnar. Í tveimur bindum er sagan rakin á knappan hátt í samhengi við strauma og stefnur hvers tíma. Sex bókmenntakennarar við Háskóla Íslands mynduðu ritstjórn undir forystu Ármanns Jakobssonar. 

„Bókmenntafélagið hefur um langt árabil átt sér þann draum að gefa út veglega listaverkabók með myndum frá Þingvöllum eftir helstu myndlistarmenn þjóðarinnar. Þá hefur félagið lengi haft mikinn hug á því að gefa út nútímalegt yfirlitsrit um sögu og samhengi íslenskra bókmennta frá landnámi til líðandi stundar,“ sagði Jón Sigurðsson við athöfnina í gær. 

Útgáfunni var fagnað í Skála Alþingis. Mynd/Aðsend

„Ég vil ítreka þakkir Bókmenntafélagsins til Alþingis fyrir ómetanlegan stuðning við útgáfu fullveldisbókanna. Við þökkum forseta Alþingis fyrir þetta höfðinglega boð, sem gefur tækifæri til þess að kynna þessum ágæta hópi bækurnar tvær í húsakynnum Alþingis,“ sagði hann enn fremur.

Alþingi samþykkti sumarið 2018 einróma tillögu þáverandi forseta Alþingis, Steingríms J. Sigfússonar, um verkefnið og komu bæði ritin út í ár. 

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, veitti bókunum viðtöku í gær en Jón Sigurðsson, fráfarandi forseti Hins íslenska bókmenntafélags, afhenti honum bókina Þingvellir í íslenskri myndlist og Ármann Jakobsson, forseti félagsins, afhenti honum bókina Íslenskar bókmenntir - saga og samhengi. 

Forsætisráðherra og viðskipta- og menningarmálaráðherra voru meðal viðstaddra. Mynd/Aðsend


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.