Lífið

„Góð lexía að fylgja hjartanu og láta ekki gagn­rýnis­raddir hafa á­hrif á sig“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Nökkvi Fjalar hefur komið sér vel fyrir í London þar sem hann rekur fyrirtækið Swipe. 
Nökkvi Fjalar hefur komið sér vel fyrir í London þar sem hann rekur fyrirtækið Swipe. 

Áhrifavaldurinn Nökkvi Fjalar ákvað að fara með fyrirtækið Swipe Media í útrás fyrir ári síðan. 30 milljón manns fylgja áhrifavöldum á skrá fyrirtækisins sem fer ört stækkandi. Elísabet Inga hitti Nökkva í Lundúnum á dögunum og ræddi við hann um ævintýrið og umtalið.

Nökkvi er eigandi Swipe ásamt Gunnari Birgissyni og Alexöndru Sól Ingvarsdóttur en fyrirtækið er umboðsskrifstofa fyrir áhrifavalda.

„Þetta byrjaði sem skemmtilegt verkefni fyrir sex árum síðan að aðstoða áhrifavalda á Íslandi að mæta þörfum þeirra og aðstoða þá að gera viðskiptatækifæri út úr þeirra áhrifum. Núna erum við komin út til London og farin að vinna með áhrifavöldum út um allan heim,“ segir Nökkvi og heldur áfram.

„Okkar helsti fókus er að aðstoða fólk við að semja við fyrirtæki, aðstoða við markmið þeirra og að ná til sem flestra.“

Heimsþekktir áhrifavaldar eru á skrá hjá þessu íslenska fyrirtæki. Nökkvi hefur verið áberandi allt frá því að hann var í 12:00 hópnum í Verslunarskólanum sem framleiðir skemmtiefni gefið út af skólanum. Hann var landsþekktur þegar hann stofnaði hópinn Áttuna 2014 ásamt félögum sínum úr Versló. Hópurinn framleiddi afþreyingarefni af ýmsu tagi.

„Það sem ég tók svona þokkalega snemma í Áttunni er að mér þótti mun skemmtilegra að aðstoða fólk við það sem því langaði að gera. Það þróaðist út í það að hjálpa öðrum áhrifavöldum við það sem þeim langaði að gera. Swipe varð í rauninni til út frá því. Ég held að það sé bara mjög góð lexía að fylgja hjartanu og láta ekki gagnrýnisraddir hafa áhrif á sig,“ segir Nökkvi sem hefur sjálfur fengið sinn skerf af umtali t.d. þegar hann ákvað að þiggja ekki bólusetningu gegn Covid-19.

„Greinar sem voru skrifaður og athugasemdir um mig, það var frábært fyrir mig að fara í gegnum þennan skóla sjálfur. Þetta hjálpaði mér í raun að verða enn betri rekstraraðili eða umboðsaðili eða hvað sem maður getur kallað þetta.“

Nökkvi segir að það séu gríðarlega miklir peningar í heimi áhrifavalda.

„Þetta er rosalega stór markaður. Það er hægt að gera gott úr þessu og rúmlega það fyrir einstaklinga sem gera þetta vel.“

Swipe hefur að undanförnu landað samningum við stór fyrirtæki á borð við Netflix, Amazon og Fortnite en hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.