Innlent

Fyrsta staðfesta smit BPIV3

Bjarki Sigurðsson skrifar
Veiran veldur ekki sýkingum í fólki. 
Veiran veldur ekki sýkingum í fólki.  Magnús Hlynur Hreiðarsson

Veiran BPIV3 (Bovine Parainfluenza Virus 3) greindist nýlega í nautgripum í fyrsta skiptið hér á landi. Um er að ræða veiru sem veldur vægri öndunarfærasýkingu í nautgripum. Ekki er ástæða til að grípa til sérstakra aðgerða. Veiran veldur ekki sýkingum í fólki.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun. Þar segir að stefnt sé að kanna útbreiðslu veirunnar á næstunni. 

Veiran greindist í kúabúi á Norðurlandi eystra þar sem kýr voru bæði með skitu og einkenni í öndunarfærum á sama tíma. Sýni voru tekin og rannsökuð með tilliti til ýmissa veira. Sýnin voru jákvæð hvað varðar mótefni gegn BPIV3.

BPIV3 er landlæg í nautgripum víðast hvar í heiminum. Veikindi eru algengust í kálfum sem ekki hafa fengið næg mótefni í gegnum brodd. Sýkingin er yfirleitt væg. Helstu einkenni eru hiti, nefrennsli og þurr hósti. Í kjölfar BPIV3 sýkingar geta komið önnur smitefni, sem valda mun alvarlegri einkennum.

Sjúkdómseinkennin í gripunum á þeim bæ sem sýkingin greindist á hér, voru aðallega þurr hósti, mæði við áreynslu og blóðnasir. Einkennin voru vægari í kálfunum en kúnum. Veikindin gengu yfir á nokkrum vikum.

Mikilvægt er fyrir bændur og alla sem starfa sinna vegna koma inn á kúa- og nauteldisbú að gæta ávallt vel að sóttvörnum. Mikilvægustu liðirnir til að draga úr áhættu á smitdreifingu eru að klæðast hreinum hlífðarfatnaði og þvo sér vel. 

Veiran veldur ekki sýkingum í fólki og hefur ekki áhrif á heilnæmi mjólkur og kjöts. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×