Lífið

Magnús Carlsen tryllti gesti Röntgen með karaókísöng sínum

Jakob Bjarnar skrifar
Lóa vissi í fyrstu ekkert hvaða „dúddar“ voru þarna á ferð en tók eftir því að mjög var sótt að einum þeirra að taka lagið. Hana tók að gruna að þarna væri nú kannski einhver nafntogaður þegar myndavélarnar flugu á loft og var þar þá mættur sjálfur Magnús Carlsen.
Lóa vissi í fyrstu ekkert hvaða „dúddar“ voru þarna á ferð en tók eftir því að mjög var sótt að einum þeirra að taka lagið. Hana tók að gruna að þarna væri nú kannski einhver nafntogaður þegar myndavélarnar flugu á loft og var þar þá mættur sjálfur Magnús Carlsen. Vísir/Vilhelm/aðsend

Myndavélar flugu á loft þegar norska undrabarnið, heimsmeistarinn í skák, greip míkrófóninn og söng Boten Anna á karaókíkvöldi á skemmti- og veitingastaðnum Röntgen í gærkvöldi við mikinn fögnuð.

Þær vinkonur í Two Non Blonds, þær Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir teiknari, sem gjarnan er kennd við hljómsveitina FM Belfast hvar hún syngur og Sandra Barilli sem heldur meðal annars úti vinsælu hlaðvarpi um kvikmyndir, standa fyrir karaókíkvöldum, tilfallandi. Sem hafa vakið mikla lukku. Og þannig var það í gær.

Allt tryllt þegar Magnús Carlsen steig á sviðið

Lóa segir að þegar hafi myndast mikil og góð stemmning. Hún segist ekki vera vel að sér í skákinni en þarna hafi verið staddur hópur „dúdda“ og það fór ekki hjá því að einkum var sótt að einum þeirra að taka lagið. Sem svo varð.

„Þetta var ógeðslega fyndið. Við hefðum ekki fattað að þetta væru einhverjar týpur nema vegna myndavélanna sem flugu á loft þegar þeir hófu upp raust sína,“ segir Lóa. Og bætir því við að Magnús Carlsen hafi sungið lagið Boten Anna.

Lesandi Vísis sendi ritstjórn myndband af frammistöðu Carlsen og er ljóst að flutningi hans var afar vel tekið.

Klippa: Magnus Carlsen syngur Boten Anna í karókí

Lóa sjálf er þekkt rokkstjarna og því ekki úr vegi að spyrja hana hvernig til hafi tekist hjá heimsmeistaranum en hún treystir sér ekki til að gefa honum einkunn.

„Erfitt að meta það þegar svona margir syngja í einu,“ segir Lóa en það myndaðist mikil stemmning á Röntgen þegar Magnús steig á svið. Og húsið tók undir meistaranum.

„Ég horfði á þetta aftan frá af því að við erum að stýra karaókíinu; á skákheiminn skaka sér.“

Þær karaokí-systur Lóa og Sandra voru ánægðar með stemmninguna sem myndaðit á Röntgen þegar hinir fjörugu skákmeistarar hófu upp raust sína.aðsend

Hjörvar Steinn skellti sér í Ecuador

Meðal þeirra sem voru þarna staddir voru að sjálfsögðu íslenski stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson sem lét sig ekki muna um að henda sér í stórsmellinn og danslagið Ecuador. „Já, hann Hjörvar, íslenski skákdrengurinn.“

Veitinga- og skemmtistaðurinn Röntgen stendur við Hverfisgötu, en heimsmeistaramótið í Fischer-skák fer nú fram á Hótel Natura. Lóa segir að sér hafi ekki einu sinni verið kunnugt um að skákmót væri í gangi. Og söngurinn hefur virkað vel fyrir Hjörvar því hann náði sínum fyrsta sigri í dag, á þriðja keppnisdegi, þegar hann lagði ríkjandi heimsmeistara í Fischer-skákinni, Wesley So.


Tengdar fréttir

Magnus Carlsen kominn til landsins með foreldrum sínum

Norðmaðurinn Magnus Carlsen er kominn til Íslands. Heimsmeistarinn kom með flugvél Icelandair frá Osló í gærkvöldi en með í för eru faðir hans og móðir, Henrik Albert Carlsen og Sigrun Øen.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×