Innlent

Barn flutt á bráða­mót­töku eftir fall

Atli Ísleifsson skrifar
Ekki segir til um aldur barnsins né hvað fallið hafi verið hátt í dagbók lögreglu.
Ekki segir til um aldur barnsins né hvað fallið hafi verið hátt í dagbók lögreglu. Vísir/Vilhelm

Barn var flutt á bráðamóttöku Landspítalans í Reykjavík til skoðunar eftir fall.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem segir frá verkefnum gærkvöldsins og næturinnar. Ekki segir til um aldur barnsins eða hvað fallið hafi verið hátt, en fram kemur að atvikið hafi átt sér stað í hverfi 101.

Einnig segir frá því að óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu á hótel í hverfi 105 vegna manns sem var grunaður um þjófnað. „Einstaklingurinn ölvaður og ósáttur við afskipti lögreglu og reyndi hann að hrækja á lögreglumenn. Einstaklingurinn handtekinn og vistaður í fangaklefa þar til hægt verður að ræða við hann.“

Þá segir frá því að tilkynnt hafi verið um slys í hverfi 105 þar sem maður á rafhlaupahjóli hafi fallið í jörðina. Segir að talið sé að maðurinn hafi misst stjórn á hjólinu vegna ísingar og var hann fluttur á sjúkrahús til skoðunar.

Féll af þaki húss

Sömuleiðis var tilkynnt um vinnuslys í hverfi 201 í Kópavogi þar sem maður hafði fallið af þaki húss sem verið var að finna við. Hann var fluttur á bráðamóttöku til skoðunar en meiðslin eru ekki talin alvarleg.

Þá segir frá því að tilkynnt hafi verið um tvö innbrot í fyrirtæki í hverfi 105 og að óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu að veitingastað í Grafarvogi í Reykjavík vegna manns sem var ósjálfbjarga sökum ölvunar. Ekki hafi tekist að koma einstaklingnum heim og er hann því vistaður í fangaklefa þar til rennur af honum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×