Frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum situr fast í þingflokki Sjálfstæðisflokksins en báðir hinir þingflokkar stjórnarflokkanna hafa afgreitt málið frá sér til þinglegrar meðferðar. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir hnífinn ekki fara á milli þingmanna flokksins og dómsmálaráðherra en gera þurfi breytingar á frumvarpinu.
Móðir tólf ára stúlku, sem reyndi að svipta sig lífi vegna hrottalegs eineltis, lýsir nær algjöru vonleysi í máli dóttur sinnar. Myndbönd af árásum jafnaldra á stúlkunna hafa vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum. Verkefnastjóri hjá Barnaheillum segir málið ólýsanlega sorglegt. Vísbendingar séu um að einelti hafi jafnvel aukist hér á landi eftir Covid.
Skógræktarstjóri segir mikilvægt að halda því til haga að fjölmargar tilraunir til að sameina Skógræktina og Landgræðsluna hafi klúðrast í gegn um tíðina. Hann er hóflega bjartsýnn á að það takist í þetta skiptið en ætlar að leggja sig allan fram.
Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir að það séu fleiri þættir en heimsmarkaðsverð á hrávöru sem hafi áhrif á verðmyndun hér á landi. Þrátt fyrir að verðbólga á ýmsum hrávörum hafi tekið að hjaðna séu framleiðsluferlar langir og verðlækkanir taki því lengri tíma.
Þetta og fleira í hádegisfréttum Bylgjunnar klukkan 12.